Greiningardeild Arion banka spáir því að ferðamönnum muni fjölga um 27,5 prósent í ár, miðað við árið í fyrra, og heildarfjöldi verði rúmlega 1,2 milljónir. Á næsta ári fjölgi þeim í 1,5 milljónir og á árunum 2017 og 2018, muni þeim fjölga um 500 þúsund og verða um tvær milljónir á árinu 2018.
Þetta kemur fram í spá bankans um gang mála í ferðaþjónustu. Gríðarlega mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu á síðustu árum. Fjölgunin var 20,7 prósent árið 2013 miðað við árið á undan, 24,1 prósent árið 2014 og samkvæmt spá verður hún 27,5 prósent á þessu ári, eins og áður sagði.
Því er spáð að hlutfallslega verði fjölgunin mest á háannatíma hvers árs, sem er frá júní til september. Þrátt fyrir mikla sókn ferðamanna utan háannatíma, frá því sem var, þá hefur sókn ferðamanna haldið áfram að vera mest yfir sumarmánuðina, enda er sá tími algengasti frítími fólk um heim allan.
Tekið er fram að spáin taki mið af forsendum sem tölverð óvissa er um. Þar á meðal er hvernig vinnumarkaðurinn muni bregðast við aukinni sókn erlendra ferðmanna hingað til lands, en gera má ráð fyrir að þúsundir starfa verði til í ferðaþjónustu, gangi spáin um fjölgunina eftir.
Mynd: Arion banki.