Framganga sjávarútvegsrisans Samherja gegn blaðamanninum Helga Seljan er til umfjöllunar í þýska blaðinu Süddeutsche Zeitung í dag. Þar er vakin athygli á yfirlýsingu fagfélags namibískra blaðamanna, sem kölluðu eftir því í upphafi mánaðar að blaðamenn í Evrópu sýndu íslenskum blaðamönnum stuðning og sögðu Ísland hratt að verða óöruggan stað fyrir blaðamenn.
Í umfjöllun Süddeutsche Zeitung er haft eftir Sakeus Iikela, formanni namibíska stéttarfélagsins og blaðamanni The Namibian að hann sjálfur hafi skrifað um Fishrot-málið, eins og Samherjamálið er kallað þar í landi. Ekkert í líkingu við það sem Helgi Seljan hafi upplifað af hálfu Samherja hafi þó hent hann vegna starfa sinna í Namibíu.
Í umfjöllun þýska blaðsins er rakið hvernig afbrotafræðingurinn og einkaspæjarinn Jón Óttar Ólafsson, sem árum saman hefur starfað sem verktaki fyrir Samherji, áreitti bæði Helga Seljan og Inga Frey Vilhjálmsson blaðamann Stundarinnar á seinasta ári.
Rætt er við Helga sjálfan, sem segir að honum hafi þótt alvarlegast þegar honum var tjáð að Jón Óttar hefði verið að fylgjast með heimili hans. „Skyndilega snerist þetta um fjölskyldu mína, öryggi barna minna og eiginkonu,“ er haft eftir Helga.
Þýska blaðið falaðist eftir svörum frá Jóni Óttari, sem vísaði í að því er virðist sömu skriflegu yfirlýsingu og hann sendi frá sér síðastliðið sumar eftir að Kjarninn fjallaði um tilburði hans í garð Helga. Þar játaði hann SMS sendingar og tíðar komur sína á kaffihús í miðborginni til þess að hitta á Helga, en sagði að Samherji hefði ekkert vitað um gjörðir hans.
Talskona Samherja er til svara fyrir fyrirtækið og segir það ekki hafa átt þátt í gjörðum Jóns Óttars. Í bréfi Samherja til blaðsins er þó vegið að Helga og starfsaðferðir hans sagðar fyrirlitlegar.
Skipt yfir í áróður
Blaðamaðurinn Aðalsteinn Kjartansson, sem nýlega lét af störfum á RÚV og hóf störf hjá Stundinni, segir þýska blaðinu að það ótrúlegasta varðandi herferð Samherja gegn fréttamönnum sé að Samherji hafi ekki óskað eftir því að staðreyndir í fréttaflutningi af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu verði leiðréttar.
„Í stað þess skiptu þeir yfir í áróður og völdu Helga sem skotmark,“ hefur Süddeutsche Zeitung, sem er eitt víðlesnasta dagblað Þýskalands, eftir Aðalsteini.
Einnig er rætt við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, nýkjörinn formann Blaðamannafélags Íslands. Hún segir þýska blaðinu að aðferðir Samherja séu án fordæma á Íslandi. Samherji sé að senda út þau skilaboð að áreitni sé það sem búast megi við þegar fjallað sé um fyrirtækið og enginn blaðamaður vilji standa í sömu sporum og Helgi.
Umfjöllun þýska blaðsins um áróðursherferð Samherja er sú önnur sem snertir málefni fyrirtækisins á skömmum tíma, en í síðustu viku fjallaði blaðið um Samherjamálið í Namibíu og uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson og tók meðal annars lögfræðinginn Evu Joly tali.