„Hefði ég verið blaðamaður hefði ég beðið seðlabankastjórann um dæmi, ég verð nú að viðurkenna að ég hefði kosið að hann færi yfir það hvað hann nákvæmlega ætti við með þessu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, um orð sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri lét falla í viðtali við Stundina sem birtist fyrir helgi. Þetta sagði Katrín í svari sínu við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar.
Í fyrirspurn sinni vitnaði Þorgerður í áðurnefnt viðtal við Ásgeir þar sem hann sagði meðal annars að Íslandi væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum. Þorgerður spurði Katrínu í kjölfarið hvort hún væri sammála fullyrðingu seðlabankastjórans eða hvort hún teldi Ásgeir fara með rangt mál.
Löggjafinn fari ekki varhluta af hagsmunavörðum
Katrín sagði í svari sínu að hagsmunaöfl reyni að hafa áhrif á ýmislegt sem gert er, eitthvað sem þingmenn ættu að þekkja vel enda senda hagsmunaöfl inn umsagnir við þingmál, auk þess sem fulltrúar hagsmunaafla mæti á fundi þingnefnda og ráðamanna. Katrín sagði að hún hefði beitt sér fyrir því að samskipti hagsmunavarða við stjórnvöld yrðu gerð gagnsærri.
„Ég hef einmitt beitt mér fyrir því sem forsætisráðherra að draga öll þessi samskipti upp á yfirborðið hvað varðar framkvæmdavaldið með nýsamþykktum lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum þar sem hagsmunavörðum er gert skylt að skrá sig og stjórnarráðinu er gert skylt að skrá þau samskipti. Ég vil segja það líka sem formaður stjórnmálaflokks að ég tel ekki að minn flokkur, sem er auðvitað hluti löggjafans, stjórnist af hagsmunaöflum.“
Katrín nefndi einnig auðlindaákvæðið sem þingið á eftir að taka afstöðu til en hagsmunaverðir og allir helstu talsmenn atvinnulífsins hafa lagst gegn. „Það er hins vegar mikilvægt að við séum með þau samskipti upp á borðum og um þau ríki gagnsæi og þar hefur sú sem hér stendur svo sannarlega beitt sér,“ sagði Katrín.
Ríkisstjórn hafi veitt hagsmunahópum skjól
„Seðlabankastjóri sem sagði sérhagsmunahópa hafa mikil völd, og hann sagði þetta vera skýrt, hann myndi varla vera að setja þetta fram ef hér léki allt í lyndi. Ríkisstjórninni hefur hins vegar algerlega mistekist í því að koma í veg fyrir að hagsmunahópar ráði hér svo miklu og það má alveg segja að ríkisstjórnin hafi að vissu leyti veitt þessum hagsmunahópum skjól,“ sagði Þorgerður er hún steig upp í pontu öðru sinni.
Hún sagði Viðreisn hafa lagt fram tillögur þess efnis að almannahagsmunir yrðu teknir fram yfir sérhagsmuni. Hún sagði að sérreglur ættu ekki að gilda í samkeppnismálum helstu hagsmunahópa og bakhjarla stjórnarflokkanna. Þá hafi hennar flokkur einnig talað fyrir auknu gegnsæi varðandi aflaheimildir og eignarhlutdeild sjávarútvegsfyrirtækja og að útgerðin ætti ekki að hafa ævarandi einokunar aðgang að auðlindinni. Þessi mál hefðu ekki fengið afgreiðslu eða verið felld.
Vill frekari skýringar seðlabankastjóra
Katrín sagði að áhugavert yrði að fá nánari skýringar á orðum seðlabankastjóra þegar hún svaraði fyrirspurn Þorgerðar öðru sinni.
„Því þetta er auðvitað mjög stór staðhæfing sem hann fer með og það skiptir máli einmitt að við ræðum þessi mál, hvernig hagsmunaaðilar beita sér og hvaða gagnsæi ríkir um það. Þar hef ég og ríkisstjórnin beitt okkur fyrir auknu gagnsæi sem veitir ekki af í þessu litla samfélagi okkar.“