Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata veltir fyrir sér tilgangi bréfaskrifta Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) en hún spurði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvers vegna forsætisráðherra ákvæði að tjá sig um afstöðu sína gagnvart úrskurði Persónuverndar við forstjóra fyrirtækisins sem úrskurðurinn fjallaði um.
Katrín svaraði og sagði meðal annars að fram kæmi í bréfi hennar til Kára að það væri hlutverk dómstóla að leggja mat á réttmæti einstakra úrlausna. „Það er að sjálfsögðu bara það lagaumhverfi sem við búum til og eðlilega hlutast ráðherra ekki til um slíka úrskurði.“
Þórhildur Sunna byrjaði fyrirspurn sína á því að rifja upp grein Kára Stefánssonar sem birtist á Vísi fyrir helgi þar sem hann gagnrýndi nýlega úrskurði Persónuverndar um vinnubrögð Íslenskrar erfðagreiningar.
„Um þrjá úrskurði er að ræða en einn þeirra felur í sér að Íslensk erfðagreining hafi brotið lög þegar hún safnaði blóðsýnum úr sjúklingum á Landspítala án þess að leyfi Vísindasiðanefndar lægi fyrir. Blóðsýnin voru tekin úr inniliggjandi sjúklingum á COVID-deild Landspítalans í kjölfar þess að Íslensk erfðagreining sótti um leyfi til Vísindasiðanefndar en áður en leyfi nefndarinnar fyrir sýnatökunni lá fyrir.
Kári er ósammála niðurstöðunni og útlistar ástæðurnar fyrir því í fyrrnefndri grein. En áhugaverðasti hluti greinarinnar sem Kári birtir er að með henni birtist einnig afrit af bréfi sem hæstvirtur forsætisráðherra skrifaði honum þar sem hún virðist taka undir sjónarmið Kára um að umræddur úrskurður sé rangur og segir meðal annars að blóðsýni hafi verið tekin að beiðni sóttvarnalæknis og með Landspítalanum. Þó kemur fram í úrskurði Persónuverndar að blóðsýnatökuna, sem staðfest er að hafi farið fram, sé hvergi að finna í skrám Landspítalans og hún hafi þar af leiðandi einmitt ekki verið unnin með Landspítalanum eins og hæstv. forsætisráðherra heldur fram og þar af leiðandi hljóti lög hafa verið brotin við framkvæmd sýnatökunnar,“ sagði þingmaðurinn.
Þórhildur Sunna sagði enn fremur að stofnanir sem gæta persónuverndar borgaranna ættu undir högg að sækja víðs vegar um heim á tímum kórónuveirunnar. „Það er vegið að sjálfstæði þeirra og réttur borgaranna til friðhelgi einkalífs hefur verið skertur verulega.“
Vekur það áhyggjur hjá þingmanninum að forsætisráðherra „virðist ætla að grafa undan sjálfstæði jafn mikilvægrar stofnunar og Persónuverndar“ og spurði hún því Katrínu hvort hún hefði lesið úrskurði Persónuverndar áður en hún sendi umrætt bréf til Kára Stefánssonar og hvort hún hefði óskað eftir einhverjum gögnum eða skýringum frá Persónuvernd um úrskurðina áður en hún sendi umrætt bréf.
Ráðherra hlutist ekki til um úrskurði Persónuverndar
Katrín svaraði og sagðist hafa lesið þennan úrskurð Persónuverndar. Hún bætti því við að Persónuvernd heyrði ekki undir hana.
„Í svari mínu við bréfi Kára Stefánssonar kom fram að ráðherra hlutast ekki til um úrskurði Persónuverndar enda er hún sjálfstæð stofnun. Hins vegar kom fram í svari mínu, og það er samkvæmt upplýsingum sóttvarnalæknis að hann hafði forgöngu um að óska eftir þessari rannsókn. Hans upplýsingar voru þær að Landspítali og Íslensk erfðagreining væru að vinna að þessu sameiginlega og heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest þann skilning við mig.
Þannig að mínar upplýsingar eru þær að rannsóknin var unnin að beiðni sóttvarnalæknis til að vera grundvöllur ákvarðanatöku hvað varðar sóttvarnaráðstafanir í samvinnu Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar. Þetta hef ég eftir sóttvarnalækni og heilbrigðisráðuneyti, af því að mér fannst háttvirtur þingmaður fyrst og fremst vera að spyrja um þessar heimildir mínar,“ sagði Katrín.
Sjálfstæði Persónuverndar hljóti að vera mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi
Þórhildur Sunna kom aftur í pontu og sagði að fram kæmi í bréfinu sem Kári birti að um bréfaskipti væri að ræða milli forsætisráðherra og hans – og að Katrín hefði augljóslega sent Kára Stefánssyni fleiri bréf en það sem hann birti vegna þess að þar birtist ekkert um sjálfstæði stofnunarinnar Persónuverndar.
„En þar liggur hundurinn einmitt grafinn, virðulegi forseti. Sjálfstæði Persónuverndar hlýtur að vera mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi, að stofnanir njóti þess trausts frá ráðamönnum að þeir virði það að ef fólk er ósátt við niðurstöðu Persónuverndar sé hægt að fara með þá niðurstöðu fyrir dómstóla.
Það kemur fram í þessum úrskurði Persónuverndar, sem hæstvirtur ráðherra segist hafa lesið, að engin skrá sé til um þessi blóðsýni hjá Landspítalanum. En gott og vel. Ég velti fyrir mér hver tilgangurinn var með þessu bréfi og hvers vegna forsætisráðherra ákveður að tjá sig um afstöðu sína gagnvart úrskurði sjálfstæðrar stofnunar við forstjóra fyrirtækisins sem úrskurðurinn fjallaði um.“
„Algerlega ómetanlegt framlag“ ÍE í baráttu við COVID-19
Katrín svaraði í annað sinn og sagði að væntanlega birti Kári Stefánsson ekki bréfið allt en fram kæmi í því að það væri hlutverk dómstóla að leggja mat á réttmæti einstakra úrlausna.
„Það er að sjálfsögðu bara það lagaumhverfi sem við búum til og eðlilega hlutast ráðherra ekki til um slíka úrskurði. Ég geri því ekki athugasemdir við það að því leyti. En hins vegar fannst mér brýnt að það kæmi fram að þær aðstæður sem þarna var unnið undir voru að hér var faraldur í uppsiglingu sem við höfðum litla sem enga vitneskju um. Við vorum öll að reyna að leggja okkar af mörkum og þar hefur Íslensk erfðagreining komið gríðarlega sterk inn í því að takast á við þennan faraldur. Aðdragandi þessarar rannsóknar var með þeim hætti sem ég lýsti,“ sagði hún.
Telur hún það vera lykilatriði því að þar með mætti segja að þessi rannsókn hefði orðið ákveðinn grundvöllur fyrir áframhaldandi ákvarðanatöku um sóttvarnaráðstafanir.
„Það var minn skilningur á þessu og eins og ég segi þá byggi ég það annars vegar á samtölum mínum við sóttvarnalækni og síðan upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins um að Landspítalinn hafi verið þátttakandi í þessari rannsókn með Íslenskri erfðagreiningu. Ég vil nota tækifærið, herra forseti, til að segja að það er algerlega ómetanlegt, framlag þessa fyrirtækis í baráttu okkar við þennan sjúkdóm,“ sagði hún að lokum.