Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur beint skriflegri fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hún spyr hana meðal annars um hvort tilefni hafi verið fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að víkja sæti við meðferð á sölu á hlut ríkisins Íslandsbanka vegna sjónarmiða um vanhæfi.
Þorbjörg fjallar um fyrirspurnina í færslu á Twitter og birtir þar með skjáskot af umfjöllun Vísis um viðtal við Bjarna í Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun sem ber fyrirsögnina: „Bjarni um pabba sinn: „Var honum bannað að kaupa?““. Er þar vísað í að félagið Hafsilfur, í eigu Benedikts Sveinssonar föður Bjarna, var á meðal þeirra 207 fagfjárfesta sem fengu að kaupa hluti ríkisins í Íslandsbanka sem seldir voru í lokuðu útboði 22. mars síðastliðinn.
Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn á þingi til forsætisráðherra um hæfi fjármálaráðherra. Skv. lögum eru 15 dagar til að svara. Spurningin: Hefur forsætisráðherra skoðun á því hvort fjármálaráðherra hefði átt að víkja sæti á einhverju stigi málsins vegna sjónarmiða um vanhæfi? pic.twitter.com/g6sGTrwMdh
— Þorbjörg Gunnlaugs (@obbasigga) April 25, 2022
Fyrirspurn Þorbjargar er alls í fjórum liðum. Í henni spyr hún forsætisráðherra einnig um gagnrýni Lilju Alfreðsdóttur, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra, sem hefur sagt opinberlega að hún hafi verið mótfallin þeirri aðferð sem beitt var við sölu á bréfunum í Íslandsbanka, til valins hóps fjárfesta, og að fátt hefði komið henni á óvart um það hver útkoman varð. Lilja hefur auk þess sagt að hún hafi komið þessum sjónarmiðum fram í aðdraganda útboðsins, en forsætisráðherra á móti bent á að Lilja hafi ekki bókað neitt um andstöðu hennar á fundum ráðherranefndar um efnahagsmál sem þær sitja báðar í. Þorbjörg spyr Katrínu með hvaða rökum hún hafi hafnað sjónarmiðum og viðvörunarorðum Lilju og með hvaða rökum hún hafi fallist á þá aðferð sem Bjarni lagði til um fyrirkomulag sölunnar.
Að endingu spyr hún hvers vegna látið hafi verið hjá líða að fara að þeim skilyrðum laga um sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum um samkeppni sem raktar eru í meginreglum laganna. Þar segir meðal annars að gæta skuli þess að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis.
Samkvæmt þingskapalögum hefur forsætisráðherra 15 virka daga til að svara skriflegum fyrirspurnum.
Öllum markmiðum náð
Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti lista yfir þá 207 aðila sem fengu að kaupa 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka í lokuðu útboði með tilboðsaðferð, þar sem hlutirnir voru seldir 2,25 milljörðum króna undir markaðsvirði þrátt fyrir að umframeftirspurn hafi verið næstum tvöföld.
Við birtingu listans kom í ljós að félag föður Bjarna hafði keypt hlut fyrir tæplega 55 milljónir króna. Bjarni sagði í kjölfarið við Morgunblaðið að hann hafi ekki haft vitneskju um þátttöku föður síns. Hann sagði við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis að hann hefði beðið sitt nánasta fólk um að taka ekki þátt og að það hefði komið sér á óvart að sjá föður sinn á meðal kaupenda.
Í viðtali við Sprengisand á Bylgjunni í gærmorgun var Bjarni svo aftur spurður út í kaup föður síns og svaraði með eigin spurningu: „Var honum bannað að kaupa?“ Í því viðtali sagði hann ennfremur að öllum markmiðum með sölunni hafi verið náð en gagnrýndi stjórnarandstöðuna og fjölmiðla harðlega fyrir þeirra umfjöllun um bankasöluna.
Sagði Lilju ekki hafa bókað neitt
Lilja sagði í Morgunblaðinu í 11. apríl að hún hefði ekki verið hlynnt þeirri aðferðafræði sem var beitt við sölu á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn. Hún hafi viljað almennt útboð, en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Lilja, sem er einn þriggja ráðherra ríkisstjórnar sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, sagðist hafa komið þeim sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins. „Ég hef alltaf talið skynsamlegt að taka lítil og hægfara skref. Hafa vaðið fyrir neðan sig. Ekki einblína á verð, heldur gæði framtíðareigenda. Önnur leið var hins vegar valin og því miður er fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð.“
Auk Lilju sitja Bjarni og Katrín í ráðherranefndinni. Sú nefnd á meðal annars að vera stefnumótandi við uppbyggingu fjármálakerfisins auk þess sem henni er ætlað að vera „vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi“.
Katrín brást við gagnrýni Lilju með því að segja að hún hafi ekki óskað að færa neitt til bókar um söluferli á hlut Íslandsbanka þegar málið var rætt í ríkisstjórn og ráðherranefnd um efnahagsmál.