Stór hluti fólks á eftirlaunaaldri munu verða með betri tekjur árið 2070 en vinnandi fólk er með nú, gangi spá Talnakönnunar um tekjuþróun ellilífeyrisþega upp. Þetta kemur fram í grein Benedikts Jóhannessonar, stærðfræðings og fyrrverandi fjármálaráðherra, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Í grein sinni fer Benedikt yfir þróun og dreifingu árstekna karla og kvenna eftir aldurshópum frá árinu 1994. Þar að auki birti hann spár Talnakönnunar fyrir næstu áratugina yfir tekjuþróun fólks á ellilífeyrisaldri, en hún tekur tillit til aukinnar ávöxtunar lífeyrissjóða og aukningu almenns framlags í lífeyrissjóði.
Samkvæmt spánum mun miðgildi árstekna 75 ára karla aukast um helming á næstu fimmtíu árum og nema rúmum átta milljónum króna á verðlagi ársins 2020. Á síðustu 30 árum hafa tekjur hópsins einnig stóraukist, en miðgildi þeirra hefur farið úr rúmum tveimur milljónum árið 1994 í rúmar fimm milljónir árið 2019.
Á sama tíma hafa tekjur 25 ára karla aukist mun minna, en miðgildi þeirra er nú lítið breytt frá árinu 2004.
Í ljósi þessarar þróunar veltir Benedikt því upp hver rétta upphæð lífeyrisgreiðslna ætti að vera. Hann segir ýmsa hafa bent á að hugsanlega sé of mikið greitt í lífeyrissjóð, en nú geta greiðslurnar numið allt að 21,5 prósent af tekjum með viðbótarframlagi í séreignarsjóð.
„Skynsamlegra væri að beina hluta sparnaðarins annað, eins og reyndar er nú þegar gert að hluta með því að leyfa ráðstöfun á hluta séreignasjóðs til inngreiðslu á húsnæðislán,“ bætir hann við.
Þetta er önnur grein Benedikts í greinaröð hans um tekjuþróun og lífeyrisgreiðslur í Vísbendingu. Í fyrstu grein sinni fór hann yfir kaupmáttarþróun síðustu áratuga eftir kyni og aldri, en samkvæmt henni dróst kaupmáttur ungra karlmanna lítillega saman á milli áranna 1994 og 2018.