Fulltrúar fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem nýlega lýstu yfir miklum áhyggjum af því að Ísland yrði „rautt land“ með tilliti til stöðu faraldursins innanlands, segja við Kjarnann nú þegar Ísland er orðið rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu og komið á lista yfir lönd sem bandaríska sóttvarnastofnunin mælir gegn ferðalögum til, að áhrifin af vexti faraldursins innanlands á vilja ferðamanna til að koma hingað séu enn sem komið er hverfandi.
„Sjö, níu, þrettán,“ segir Steingrímur Birgisson framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar og Hölds. Hann sagði við Morgunblaðið fyrir rúmum tveimur vikum að ef Ísland yrði „allt í einu rautt“ og talið hááhættusvæði myndi það hafa miklar afleiðingar.
Að hans sögn ber ekki mikið á þeim enn, utan þess að ferðamenn frá Ísrael hafi verið að afbóka bílaleigubíla. Á morgun bætist Ísland nefnilega á lista yfir hááhættusvæði í Ísrael og þá munu allir þurfa að fara í sóttkví eftir að þeir koma til Ísrael eftir Íslandsferð, jafnt bólusettir sem óbólusettir.
Bandaríkjamenn hafa verið meirihluti erlendri ferðamanna sem til landsins koma það sem af er ári og nú mælir sóttvarnastofnunin þar í landi gegn ferðalögum til Íslands, bæði fyrir bólusetta og óbólusetta. Það á eftir að koma í ljós hvaða áhrifi þessi tilmæli munu hafa, en þau má kalla sambærileg við þau sem embætti sóttvarnalæknis hefur gefið út hér á landi. Samkvæmt tilmælunum hérlendis er heimurinn allur, utan reyndar Grænlands, skilgreindur sem áhættusvæði.
Steingrímur segir að allir í greininni hafi haft áhyggjur af því að staða faraldursins á Íslandi gæti orðið enn eitt áfallið fyrir ferðaþjónustuna, sem hafi tekið á sig ítrekuð högg það sem af er faraldrinum. „Af reynslu undanfarins árs þá eru menn alltaf stressaður og hræddir,“ segir framkvæmdastjórinn.
„Það er smá titringur“
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, stærstu hótelkeðju landsins, segir að áhrifin af risi faraldursins hérlendis eigi ef til vill eftir að koma í ljós, en í samtali við Morgunblaðið þann 24. júlí sagði hann að það væri litakóðinn sem þetta allt snerist um í raun og veru, staða faraldursins á Íslandi væri áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna.
„Það hefur ekki verið að koma hrina af afbókunum yfir okkur,“ segir Davíð, en nefnir þó að það hafi hægst á bókunum undanfarnar vikur, eftir að bókanir inn í haustið og vetur hafi áður verið komnar á gott skrið.
„Það er smá titringur,“ segir Davíð og nefnir að stærri verkefni sem verið hafi verið fyrirhuguð hér á landi, til dæmis kvikmyndaverkefni og fleira slíkt, séu mögulega í óvissu. Fólk sé að velta fyrir sér hlutunum, en ekki búið að afbóka.
Davíð segist telja að ferðaskrifstofur séu duglegar að upplýsa sína viðskiptavini um að bólusetning sé útbreidd á Íslandi og er vongóður um að ferðamenn sem hafa verið að koma til landsins undanfarna mánuði haldi áfram að skila sér. Þannig sé Ísland til dæmis enn „grænt“ í bókum Bretlands og þaðan muni ferðamenn koma, sömuleiðis frá Þýskalandi og víðar að úr Evrópu, auk Bandaríkjanna. Asíumarkaðurinn er hins vegar alveg í frosti og ólíklegt að það breytist fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári, að sögn Davíðs.
Fleira gæti komið til en bara staða faraldursins innanlands
Snorri Pétur Eggertsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Keahótela, sagði Mogganum fyrir rúmum tveimur vikum að hann teldi það gera Ísland að vænlegum áfangastað að landið væri búið að vera „grænt“ og hefði verið það í langan tíma.
Hann segir núna í samtali við Kjarnann að það sé ljóst að frá því að fréttir af delta-afbrigði veirunnar fóru að taka meira pláss í umræðunni hafi eitthvað verið um afbókanir og hægst hafi á sölu.
Þó sé ekki alveg ljóst hvað sé að valda því að það hægist á bókunum, annars vegar gæti delta-afbrigðið og staðan hér innanlands og raunar á erlendum markaðssvæðum líka verið að hafa áhrif. Hins vegar sé komið fram í enda sumars, hótelin séu orðin nokkuð vel bókuð og verðið aðeins orðið hærra, sem hafi líka áhrif.
Hann segist merkja að afbókanir séu algengari á þriggja stjörnu hótelum en þeim sem eru með fleiri stjörnur og að svo virðist sem einstaklingar séu fremur að halda sínum ferðaáætlunum til streitu en hópar í skipulögðum ferðum. Hann segir þessa tilgátu þó byggja á frekar takmörkuðum gögnum.
Snorri segir ferðamenn frá Evrópu hafa verið að halda sig við sínar bókanir að mestu þrátt fyrir að breytta stöðu Íslands á evrópska sóttvarnakortinu. „Svo er spurning hvernig Ameríkaninn bregst við þegar við erum komin í efsta þrep hjá þeim.“
Hann segir að nú séu þess merki að fólk sé að bóka ferðir með skömmum fyrirvara, kannski tveimum vikum fyrir komuna til landsins eða jafnvel skemmri fyrirvara. Dregið hafi úr bókunum fram í tímann, sem jukust töluvert í sumar.
„Fólk er ekki að bóka fram í tímann og kannski þorir því ekki,“ segir Snorri, sem segir þó flestar bókanir Keahótela þannig að þær séu sveigjanlegar fyrir kúnnann og endurgreiðanlegar að fullu fram á síðustu stundu. Fáir kjósi að greiða einhverjum þúsundköllum minna fyrir gistinguna ef það þýði að hún fáist ekki endurgreidd.
Hann segir þetta haldast í hendur við það sem flugfélögin sem fljúga til landsins séu að gera, þau bjóði upp á sveigjanlega skilmála og leyfi fólki að fresta fluginu sínu eftir hentisemi.
„Þá ertu að taka þessa pressu af fólki og það er ekki að tapa peningnum. Það er engum greiði gerður með að vera harður,“ segir Snorri.