Rannsóknarnefnd í Hollandi hefur staðfest að flugvél MH 17 var skotin niður með flugskeyti þegar hún fórst í Úkraínu, í júlí í fyrra. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Allir um borð, 298 talsins, létust. Ekki liggur fyrir með staðfestri rannsókn úr röðum hverra flugskeytið kom, en Úkraínumenn og þjóðhöfðingjar Vesturlanda hafa sagt líklegast að það hafi verið uppreisnarhópar sem njóta stuðnings og verndar Rússa, sem hafi skotið vélina niður. Þessu hafa Rússar alfarið neitað.
Flugvélin, sem var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur, fórst inn á svæði sem Úkraínumenn og Rússar, auk uppreisnarhópa, höfuð barist í hörðum bardögum. Flestir þeirra sem létust, 196 talsins, voru Hollendingar, en þeir sem létust komu frá tíu löndum. Meðal annars þess vegna var skipuð rannsóknarnefnd í Hollandi sem fór nákvæmlega yfir allar upplýsingar sem fyrir lágu, og rannsakaði brot úr vélinni í sjálfstæðri rannsókn.
Hollensk stjórnvöld hafa nú boðað sakamálarannsókn á málinu, og verður því fylgt eftir af fullum þunga, af því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.