Stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakur, Sýn og Torg, fá hvert um sig rúmlega 81,4 milljónir króna í opinberan rekstrarstuðning árið 2021, samkvæmt úthlutun sem var í höndum úthlutunarnefndar sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði.
Samkvæmt því sem segir á vef fjölmiðlanefndar í dag bárust alls 23 umsóknir um rekstrarstuðning og samtals sótt um stuðning að fjárhæð 880 milljóna króna. Tveimur umsóknum var synjað og tveimur vísað frá, þar sem þær bárust eftir lögbundinn frest.
Fyrir utan stærstu fyrirtækin þrjú fær Myllusetur, útgefandi Viðskiptablaðsins, hæstan styrk eða 26,8 milljónir króna. Útgáfufélag Stundarinnar fær 25,3 milljónir, sjónvarpsstöðin N4 fær 19,4 milljónir og Kjarninn fær 14,4 milljónir króna.
Bændasamtök Íslands, sem gefa út Bændablaðið, fá 12,4 milljónum úthlutað. Önnur útgáfufyrirtæki fá úthlutað undir tíu milljónum króna.
Samkvæmt lögum um fjölmiðla, sem breytingar voru gerðar á fyrr á þessu ári, getur rekstrarstuðningur við einkarekna miðla að hámarki numið 25 prósentum af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda, en þó að hámarki til 100 prósent
Til úthlutunar voru alls 392 milljónir króna að frádregnum kostnaði vegna umsýslu, auglýsinga, þóknunar fyrir störf úthlutunarnefndar, sem nam um 0,8 prósentum af heildarupphæðinni eða 3.152.661 krónum. Til úthlutunar voru því 388.847.339 krónur.
Stærstu miðlarnir skerðast frá fyrra ári
Verið er að úthluta rekstrarstuðningi til fjölmiðla annað árið í röð, en í fyrra var um sérstaka COVID-19 aðgerð að ræða. Þá fengu tvö stærstu útgáfufélögin hærri úthlutun, en Árvakur fékk 99,9 milljóna króna styrk og Sýn fékk 91,1 milljón.
Nú fá þessi fyrirtæki, rétt eins og Torg sem gefur út Fréttablaðið, Hringbraut og DV, 81,4 milljónir, en Torg fékk 64,7 milljónir króna í fyrra. Ekkert fyrirtæki fer upp í 100 milljóna króna þakið sem er sett á hvert og eitt fyrirtæki, eins og Árvakur gerði í fyrra.
Virðist úthlutunarnefndin því hafa notast við þá aðferðafræði við úthlutunina sem fjölmiðlanefnd setti fram í sínum skilningi á reglunum í umsögn til Alþingis snemma á þessu ári. Fjölmiðlanefnd horfði á hlutina með þeim hætti að ef hlutur stuðningshæfs rekstrarkostnaðar væri hærri en 100 milljónir króna bæri að miða við að hlutur viðkomandi félags fyrir hlutfallslega skerðingu teldist aldrei hærri en 100 milljónir króna.
Stuðningurinn ætti svo að skerðast í jöfnum hlutföllum þar til að heildarupphæðin væri sú sama og áætlaðar fjárveitingar til verkefnisins.
Athugasemd ritstjórnar: Kjarninn er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem nýtur opinbers rekstrarstuðnings.