Stefán Broddi Guðjónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Hann hefur verið starfandi forstöðumaður deildarinnar síðan að Regína Bjarnadóttir hætti í starfinu í vor til að gerast framkvæmdastjóri þróunarverkefna fyrir Aurora velgerðarsjóðinn, sem stofnaður var árið 2007 að frumkvæði hjónanna Ólafs Ólafssonar og Ingibjörgu Kristjánsdóttur.
Stefán Broddi hefur starfað hjá Arion banka frá ársbyrjun 2012 sem sérfræðingur í greiningardeild þar sem hann hefur haft umsjón með fyrirtækjagreiningu. Þar áður starfaði hann hjá Straumi fjárfestingarbanka í markaðsviðskiptum og sem forstöðumaður eigin viðskipta á Íslandi. Á árunum 2006 - 2008 var Stefán fjárfestingastjóri hjá Exista og frá árinu 2001 til ársins 2006 starfaði hann í Íslandsbanka sem sérfræðingur í greiningu og markaðsviðskiptum. Á árunum 1998 – 2001 var Stefán blaðamaður á Viðskiptablaðinu.
Stefán Broddi er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.