Stefán Vagn Stefánsson, núverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins, mun leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Stefán Vagn er einnig yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra og varaformaður byggðarráðs sveitarfélags Skagafjarðar. Hann ákvað að sækjast eftir oddvitasætinu eftir að að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ákvað að færa sig um set og bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Valið var á lista Framsóknar í kjördæminu með póstkosningu og 1.157 tók þátt í henni. Athygli vekur að Halla Signý Kristjánsdóttir, sitjandi þingmaður flokksins, féll um eitt sæti og lenti í því þriðja. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, 24 ára formaður Sambands Ungra Framsóknarmanna og núverandi varaþingmaður, náði öðru sætinu á listanum. Halla Signý hafði gefið það út að hún vildi leiða í kjördæminu en nú lítur allt út fyrir að dagar hennar sem þingmaður séu taldir eftir kosningarnar í haust, að minnsta kosti að sinni
Þau sem hlutu kosningu í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi voru:
- Stefán Vagn Stefánsson hlaut 580 atkvæði í fyrsta sæti
- Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir hlaut 439 atkvæði í fyrsta og annað sæti
- Halla Signý Kristjánsdóttir hlaut 418 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti
- Friðrik Már Sigurðsson hlaut 526 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti
- Iða Marsibil Jónsdóttir hlaut 563 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti
Ásmundur Einar tilkynnti um miðjan janúar að hann ætlaði að færa sig til Reykjavíkur í komandi kosningum. Við það tilefni sagði hann í stöðuuppfærslu á Facebook: „Það kann að virðast sérstök ákvörðun að fara úr því́ sem næst öruggu þingsæti í Norðvesturkjördæmi, þar sem Framsókn á sér langa og farsæla sögu, í frammboð þar sem flokkurinn hefur glímt við ýmsar áskoranir í undanförnum kosningum. Að baki þessari ákvörðun liggur metnaður til að ná fram stórum pólitískum breytingum í íslensku samfélagi.“
Ásmundur Einar sagði enn fremur að Framsóknarflokkurinn muni ekki ná að verða leiðandi afl í stórum kerfisbreytingum sem hann telur að þurfi að eiga sér stað í íslensku samfélagi án þess að flokkurinn nái að styrkja sig í þéttbýli og þá sérstaklega í Reykjavík.