Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, hefur lagt til að atkvæðagreiðsla fari á ný fram um sjálfstæði Skotlands þann 19. október á næsta ári.
Sturgeon tilkynnti í dag að hún myndi rita Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands bréf og óska eftir formlegu samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni, en jafnframt sagði hún að þrátt fyrir að það fáist ekki muni hún halda áætlun sinni til streitu.
Hæstiréttur Bretlands þarf þó að úrskurða um lögmæti atkvæðagreiðslunnar áður en hún færi fram, fáist formlegt leyfi breska forsætisráðherrans ekki.
Samkvæmt því sem segir í frétt BBC af þessum vendingum, sem hafa legið í loftinu um hríð, stefnir Sturgeon á að sama spurning verði lögð fyrir skoskan almenning og í atkvæðagreiðslunni sem fram fór árið 2014: Ætti Skotland að vera sjálfstætt land?
Fram kemur í frétt BBC að Sturgeon hafi komið því á framfæri í dag að ef hæstiréttur telji að þjóðaratkvæðagreiðsla verði ekki lögmæt án formlegs samþykkis bresku stjórnarinnar, muni hún líta svo á að næstu þingkosningar í Bretlandi verði í reynd þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði.
Þegar kosið var um málið árið 2014 varð niðurstaðan sú að 55,3 prósent kjósenda sögðu nei við sjálfstæði, en 44,7 prósent sögðu já. Kosningaþátttaka var 84,6 prósent.
Fyrir og eftir þá atkvæðagreiðslu var gjarnan rætt um að með þjóðaratkvæðinu skyldi málið verða lagt til hliðar um lengri tíma, en sjálfstæðissinnar hafa á undanförnum árum meðal annars sagt að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, sem naut lítils stuðnings í Skotlandi, hafi orðið til þess að tilefni sé til að leyfa Skotum að segja hug sinn til sjálfstæðis á ný.
Nú stefnir Sturgeon á það, sem áður segir, að atkvæðagreiðsla fari fram í október á næsta ári.