Þrír opinberir sjóðir, tónlistarsjóður, Hljóðritasjóður og Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar verða sameinaðir undir merkjum nýs tónlistarsjóðs, samkvæmt frumvarpsdrögum sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Um er að ræða ný heildarlög, tónlistarlög, sem sögð er „brýn þörf“ á að setja til þess að skýra lagaumhverfi tónlistar á Íslandi. Með setningu laganna, sem ráðgert er að taki gildi um komandi áramót, munu eldri lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands og lög um tónlistarsjóð falla niður.
Tónlistarmiðstöð sem á að tryggja fjölbreytni og grósku
Samkvæmt frumvarpdrögunum á að stofna sérstaka Tónlistarmiðstöð, sem á að verða sjálfseignarstofnun með sambærilegu rekstrarfyrirkomulagi og Íslandsstofa.
Mun hún taka yfir hlutverk Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, m.a. við kynningu á íslenskri tónlist og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar sem nótnaveita fyrir íslensk tónverk.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að hinni nýju Tónlistarmiðstöð sé „ætlað að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistargeirans“, en á meðal þess sem hún á að gera er að styðja við uppbyggingu sprotafyrirtækja, sjá um að kynna íslenska tónlist, auk þess að „hlúa að ferli listafólks og tryggja fjölbreytni og grósku í tónlistargeiranum hér á landi“.
Gert er ráð fyrir að stærstur hluti tekna Tónlistarmiðstöðvarinnar verði þjónustusamningar við ríki, stofnanir og samtök, ásamt öðrum tilfallandi framlögum.
Ráðherra mun skipa fimm manna stjórn yfir hina nýju Tónlistarmiðstöð, til þriggja ára í senn. Fjórir stjórnarmenn verða tilnefndir af fjórum hagsmunasamtökum í tónlistargeiranum. STEF fær einn stjórnarmann, Félag hljómplötuframleiðanda einn, Félag íslenskra hljómlistarmanna einn og Tónskáldafélag Íslands einn. Ráðherra mun svo skipa formann stjórnarinnar án tilnefningar.
Fimmtán manna tónlistarráð til ráðgjafar
Í frumvarpsdrögunum er einnig gert ráð fyrir að sett verði á fót sérstakt „tónlistarráð“ sem á að verða bæði stjórnvöldum og Tónlistarmiðstöðinni til ráðgjafar um málefni sem varða tónlist. Samkvæmt frumvarpsdrögunum eiga allir hagsmunaaðilar í íslensku tónlistarsenunni að eiga sæti í ráðinu og er haldið utan um sérstakan „hagaðilalista“ í ráðuneytinu.
Ekki verða færri en 15 fulltrúar í ráðinu til að byrja með, en fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að eftirfarandi samtök og stofnanir séu á hagaðilalistanum í dag: Bandalag íslenskra tónleikahaldara, Bandalag íslenskra listamanna, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag tónskálda og textahöfunda, Mengi, Menningarfélag Akureyrar, LHÍ Tónlistardeild, List án landamæra, RÚV, Samtónn, Sinfóníuhljómsveit Íslands, STEF, Tónskáldafélag Íslands, Tónlistarborgin Reykjavík.
Þjóðareignarákvæði um Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sem áður segir verða sérlög um Sinfóníuhljómsveit Íslands felld niður ef þessi nýju heildarlög um tónlist verða að veruleika. Í frumvarpsdrögunum er sérstaklega tekið fram að Sinfóníuhljómsveitin sé í eign íslensku þjóðarinnar, en ekkert slíkt þjóðareignarákvæði er í eldri lögum. Ríkið og Reykjavíkurborg reka Sinfó í sameiningu og ber ríkið 82 prósent kostnaðar en borgin 18 prósent.
Í kaflanum um Sinfóníuhljómsveit Íslands eru einnig lagðar til þær breytingar frá núverandi lögum að lágmark stöðugilda hjá sveitinni að manna er hækkað, en í núverandi lögum segir að Sinfóníuhljómsveitin skuli ekki hafa færri en 65 fasta hljóðfæraleikara. Hið lögbundna lágmark er hækkað upp í 88 stöðugildi.
Í greinargerð segir að um langa hríð hafi Sinfóníuhljómsveit Íslands haft hljóðfæraleikara í 88,5 stöðugildum og stefnan og markmiðið hafi frekar verið að auka þar við til framtíðar, svo hljómsveitin nái að vaxa og þroskast á við sambærilega hljómsveitir á Norðurlöndunum sem margar hverjar eru sagðar með yfir 100 stöðugildi.
„Ástæða er til að lögfesta þau 88 stöðugildi sem heimild hefur verið fyrir í fjárlögum til sveitarinnar,“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögum Lilju.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef frumvarpið verði óbreytt að lögum muni það ekki fela í sér tekjubreytingar fyrir ríkissjóð, en þó er gert ráð fyrir því að í kjölfar samþykktar þess verði 600 milljónum króna veitt tímabundið á árunum 2023-2025 til stofnunar og reksturs Tónlistarmiðstöðvar og eflingar tónlistarsjóðs.