Bankasýsla ríkisins og Íslandsbanki sendu í morgun frá sér tilkynningu, þar sem áform um hlutafjárútboð og skráningu bankans á markað eru staðfest. Að öllu óbreyttu gæti útboðið farið fram fyrir lok næsta mánaðar, samkvæmt tilkynningunni. Útboðið mun fara fram með bæði almennu útboði á hlutabréfum til fagfjárfesta og almennra fjárfesta á Íslandi og sömuleiðis lokuðu útboði til „tiltekinna fagfjárfesta í ýmsum öðrum lögsögum.“
Útboðið mun ná til að lágmarki 25 prósenta af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans, en stjórn bankans mun óska eftir því að allt hlutafé bankans verði tekið til viðskipta á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland. Ríkissjóður, sem er seljandi hlutanna, er í dag eini eigandi bankans. Ríkið mun skuldbinda sig til þess að selja ekki frekari hlut í bankanum í 180 daga eftir fyrsta viðskiptadag hlutabréfana í Kauphöllinni.
Citigroup Global Markets Europe AG, Íslandsbanki hf. og J.P. Morgan AG hafa samkvæmt tilkynningu sameiginlega umsjón með útboðinu og eru leiðandi söluráðgjafar ásamt Barclays Bank Ireland PLC, HSBC Continental Europe, Fossum mörkuðum hf. og Landsbankanum hf.
Arion banki hf. og Kvika banki hf. ásamt Arctica Finance hf., Íslenskum fjárfestum hf. og Íslenskum verðbréfum hf. munu einnig hafa aðkomu að útboðinu sem söluráðgjafar.
Bjarni segir skráningu færa Ísland nær „heilbrigðara umhverfi“
Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra að skráning bankans á markað sé „mikilvægt skref í þá átt að draga úr umtalsverðu eignarhaldi íslenska ríkisins á fjármálamarkaði“ og að það muni „veita ríkinu skýrt fordæmi í þá átt að selja það sem eftir stendur af eignarhlut í bankanum.“
„Með þessum áfanga færumst við nær heilbrigðara umhverfi á fjármálamarkaði, eins og sjá má hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum. Það er ánægjulegt að sjá að sölumeðferðin, sem stýrt er af Bankasýslu ríkisins og ráðgjöfum hennar, gengur vel og hlakka ég til að ljúka henni með góðum árangri,“ er einnig haft eftir Bjarna.
Búið að leggja grunn að aukinni arðsemi, segir bankastjórinn
„Frá endurreisn Íslandsbanka árið 2008 höfum við með árangursríkum hætti framfylgt stefnu sem hefur leitt af sér þann sterka og sjálfbæra grunn sem við stöndum á í dag,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur forstjóra Íslandsbanka í tilkynningunni. Hún segir bankann vel í stakk búinn til þess að takast á við nýja tíma.
„Við höfum lagt grunn að aukinni arðsemi til framtíðar og sett okkur vel skilgreind markmið til að ná arðsemi eigin fjár umfram 10%, sem skapar grunn fyrir arðgreiðslur til hluthafa, bæði í formi hefðbundinna arðgreiðslna sem og greiðslu á umfram eiginfé. Stjórnendateymi bankans býr yfir mikilli reynslu og hefur sögulega náð þeim markmiðum sem bankinn hefur sett sér. Ég er fullviss um að við munum halda því áfram,“ er haft eftir Birnu.
Markmiðið að greiða um helming hagnaðar í arð
Í umfjöllun um fjárhagsleg markmið bankans segir að stefnt sé að því að skila arðsemi eigin fjár á bilinu 8-10 prósent fyrir árið 2023 og yfir 10 prósent til lengri tíma.
Þá stefnir bankinn að því að lækka kostnaðarhlutfall sitt niður í 45 prósent fyrir árið 2023 og miðar við að halda eiginfjárhlutfalli þáttar 1 (CET1) yfir 16 prósentum til lengri tíma.
Markmið bankans er síðan að um 50 prósent af hagnaði hvers árs verði greiddur út í formi hefðbundinna arðgreiðslna. Jafnframt sé möguleiki á því að nýta umfram eigið fé bankans til frekari arðgreiðslna, kaupa á eigin bréfum eða til vaxtar sem mun styðja við aukna arðsemi eiginfjár.