Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) fordæmir að íslenska utanríkisráðuneytið hafi ráðið flugfélagið Bláfugl, Bluebird Nordic, til þess að annast flutning á hergögnum og öðrum varningi vegna stríðsins í Úkraínu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag.
Kjarninn sagði frá því á mánudag að Bláfugl hefði tekið að sér nokkur flug fyrir utanríkisráðuneytið, en ráðuneytið hefur hefur lagt fram leiguflugvélar til aðstoðar bandalagsríkjum sem eru að flytja meðal annars hergögn þétt upp að landamærum Úkraínu.
Utanríkisráðuneytið sjálft var ekki búið að segja frá því að Bláfugl, sem hefur verið í miklum deilum við stéttarfélag flugmanna undanfarin ár og verið harðlega gagnrýnt af Alþýðusambandi Íslands sömuleiðis, hefði verið ráðið til verksins.
Sérstök fréttatilkynning var þó send út um fyrsta fraktflugið á vegum íslenskra stjórnvalda og tekið fram að það hefði verið með vél frá Air Atlanta.
Síðan þá hafa verið farnar allt í allt þrettán ferðir á vegum íslenskra stjórnvalda með vélum bæði Atlanta og Bláfugls, samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn fékk frá utanríkisráðuneytinu á mánudag.
Félagsleg undirboð og gerviverktaka
Í yfirlýsingu FÍA í dag segir að félagið hafi ítrekað bent á það hvernig Bláfugl, sem starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og lúti íslenskum lögum, hafi „brotið gegn íslenskri vinnulöggjöf með félagslegum undirboðum og gerviverktöku, og sniðgengið kjarasamning sinn við FÍA.“
„Bláfugl hefur auk þess alfarið hundsað niðurstöðu Félagsdóms sem féll þann 16. september síðastliðinn og með því gert alvarlega atlögu að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi,“ segir einnig í yfirlýsingu FÍA.
Þar segir einnig að það hljóti að vera „krafa okkar allra að íslensk fyrirtæki virði gildandi lög, kjarasamninga og niðurstöður dómstóla“ og að það sé „með öllu óásættanlegt að það fái að viðgangast að íslenska ríkið, í umboði skattgreiðenda, eigi viðskipti við slíkt félag.“
Starfsemi Bláfugls er að mestu leyti úti í heimi þrátt fyrir að það sé með íslenskt flugrekstrarleyfi, en félagið er í eigu Avia Solutions Group, sem er með höfuðstöðvar á Kýpur.
Stærsti einstaki eigandi félagsins er litáíski auðmaðurinn Gediminas Ziemelis. Avia Solutions Group keypti Bláfugl af fyrri íslenskum eigendum árið 2020.