Stjórn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) samþykkti á fundi sínum í dag að boða með fjögurra vikna fyrirvara til aukaþings í samræmi við 13. grein laga KSÍ. Stjórn, varafulltrúar og landshlutafulltrúar ákváðu á sama tíma að segja af sér og munu skila umboði sínu í síðasta lagi þegar til aukaþingis kemur. Ásgeir Ásgeirsson stjórnarmaður tilkynnti fyrr í kvöld að hann segi sig frá trúnaðarstörfum fyrir KSÍ samstundis. Í pistli sem hann ritaði á Facebook sagði Ásgeir að „drullan hafi dunið yfir“ hann án þess að hann hefði gert nokkuð af sér. „Ég get ekki boðið mér og minni fjölskyldu uppá þann viðbjóð sem hefur verið sagt um okkur í stjórn KSÍ.“
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, ætlar að gegna starfi sínu áfram en skorað hafði verið á hana að segja einnig af sér. Hún staðfesti það í tíufréttum RÚV í kvöld.
„Þessi niðurstaða er í samræmi við áskoranir Íslensks Toppfótbolta, óskir fulltrúa félaga sem sent hafa áskorun um aukaþing og þrýsting frá samfélaginu. Stjórnin hefur fundað með forseta ÍSÍ um framgang málsins og um það hvernig best verður haldið um starfsemi KSÍ fram að aukaþingi svo starfsemin haldist órofin. Fundað verður með fulltrúum UEFA og FIFA um stöðu málsins og fyrirhuguð stjórnarskipti þannig að ekki þurfi að koma til afskipta knattspyrnusambandanna að starfsemi sambandsins.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ. Þar segir einnig að vinna faghóps um endurskoðun viðbragða við kynferðisbrotum og ofbeldi innan hreyfingarinnar og hvernig staðið var og verður að stuðningi við þolendur verði áfram í forgangi.
Ung kona steig hins vegar fram í viðtali við RÚV á föstudagskvöldið og greindi frá því að hún hefði orðið fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu árið 2017. Hún sagði einnig frá samskiptum við KSÍ á sínum tíma og furðaði sig á að formaður KSÍ fullyrti að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot leikmanna. Konan sagði að lögmaður á vegum KSÍ hefði boðið henni þagnarskyldusamning sem hún hafnaði.
KSÍ neitaði síðar um kvöldið að umræddur lögmaður hefði verið á þeirra vegum en hún stóð föst á sínu.
Tilkynntu í gær að þau ætluðu að sitja áfram
Stjórn KSÍ tilkynnti hins vegar í gær að hún og lykilstarfsmenn myndu sitja áfram. Vinna myndi hefjast með utanaðkomandi fagaðilum um að endurskoða öll viðbrögð við kynferðisbrotum og ofbeldi innan KSÍ og hvernig staðið var og verður að stuðningi við þolendur. Faghópur yrði settur á laggirnar og stjórn KSÍ hét því í yfirlýsingu að taka á þessum málum af alvöru og festu og fylgja ráðleggingum faghópsins.
Stjórnin hefur fundað undanfarna daga um þær alvarlegu ásakanir sem beinst hafa að sambandinu að undanförnu um þöggun kynferðisbrota. „Við lítum málið afar alvarlegum augum,“ sagði í yfirlýsingunni.
Þar sagði enn fremur að allir stjórnarmenn hefðu íhugað stöðu sína en ákveðið að sitja áfram. Varaformenn KSÍ myndu taka við verkefnum sem höfðu verið á hendi Guðna, en þau eru Gísli Gíslason og Borghildur Sigurðardóttir.
Ákvörðun stjórnarinnar var illa tekið og aðildarfélög KSÍ skoruðu á stjórnina og framkvæmdastjórann Klöru Bjartmarz að segja af sér. Þá kröfðust stórir styrktaraðilar sambandsins skýringa á stöðu mála auk þess sem mikil samfélagslegur þrýstingur skapaðist á að gripið yrði til frekari aðgerða. Það leiddi til þess að stjórnin sagði öll af sér í kvöld.