Stjórn Samherja hefur sent bankaráði Seðlabanka Íslands formlegt bréf þar sem þess er óskað að bankaráðið hlutist til um það, að skoðun fari fram á því hvernig Seðlabanki Íslands hafi staðið að rannsóknum á meintum brotum gegnum gjaldeyrislögum.
Í bréfinu, sem birt er á heimasíðu Samherja, er Már Guðmundsson seðlabankastjóri harðlega gagnrýndur og orð sem hann hefur látið falla um málið, þar sem vitnað er til „lagaklúðurs“, eru harðlega gagnrýnd. Segir í bréfinu að málin á hendur stjórnendum Samherja hafi verið látin niður falla vegna þess að ekki hafi fundist nein rök fyrir ásökunum um lögbrot eftir ítarlega rannsókn.
Eins og þegar hefur verið greint frá, felldi embætti sérstaks saksóknara niður mál á hendur Þorsteini Má Baldvinssyni, og þremur öðrum stjórnendum Samherja, en gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands kærði meint lögbrot til embættisins. Má rekja upphaf málsins til umfangsmikilla húsleita í mars 2012 í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri og í Reykjavík þar sem hald var lagt á gögn fyrirtækisins.
Stjórn Samherja gagnrýnir Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, harðlega. Mynd: Anton.
Í bréfi stjórnar Samherja er framferði seðlabankans harðlega gagnrýnt.
„Að mati stjórnar Samherja hefur þetta mál varpað ljósi á alvarlegar brotalamir í stjórnsýslu og starfsemi seðlabankans, sem og seðlabankastjóra sjálfs, í gjaldeyrismálum. Hvort eingöngu sé um að kenna brotum bankans á þeim lögum og reglum sem um hann gilda eða hvort sá lagarammi sem veita á bankanum aðhald og stýra honum í átt til góðrar stjórnsýslu sé um að kenna verður ekki sagt til um hér. Hins vegar varpar mál þetta ljósi á brýna nauðsyn þess að stjórnsýsla bankans og seðlabankastjóra í gjaldeyrismálum og -eftirliti, sé skoðuð ofan í kjölinn, og er þess, sem fyrr segir, óskað að bankaráð Seðlabankans hlutist til um það,“ segi í lokarðum bréfsins.