Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna á þingi hafa óskað eftir því að fá skýrslu frá Ríkisendurskoðun, þar sem tekin verði saman öll framlög, styrkir, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samningar ráðherra í ríkisstjórninni frá því að Alþingi fór í sumarfrí 13. júní og þar til það settist á ný 23. nóvember.
Fyrsti skýrslubeiðandi er Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar, en allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna fimm, alls 25 talsins, eru skrifaðir fyrir skýrslubeiðninni.
Í greinargerð með skýrslubeiðninni segir að í aðdraganda alþingiskosninganna í haust hafi borið á því að „ráðherrar hefji úthlutanir til einstakra mála í stórum stíl til að vekja athygli á sér og sínu framboði“ og sömuleiðis að ráðherrar hafi lofað „fjárveitingum sem ekki hafa komið til formlegrar umræðu á Alþingi“ og eru loforð um fjárveitingar til byggingar geðdeilda, nemendagarða og þyrluskýrla sérstaklega nefnd í því samhengi.
Stjórnarandstaðan segir „ólýðræðislegt að svo sé farið með almannafé“ segja ennfremur að með þessum hætti séu ráðherrar jafnvel að misnota aðstöðu sína.
„Skýrslubeiðendur telja nauðsynlegt að gagnsæi og aðhald sé með fjárveitingum sem þessum og til þess að það sé tryggt þarf að liggja fyrir óháð úttekt á þeim. Skýrslubeiðnin er einnig gerð þannig að ekki megi efast um tilgang fjárveitinga ráðherra og til að jafnræðis sé gætt milli móttakenda hins opinbera fjármagns úr hendi ráðherra,“ segir í greinargerðinni.
Ráðherrar með veskið á loftið
Stundin greindi nýlega frá aðgerðum ráðherra á síðustu dögunum fyrir kosningar, en margar þeirra fólu í sér töluverð fjárútlát fyrir ríkissjóð. Þar má nefna 25 milljóna króna styrkveitingu Svandísar Svavarsdóttur fyrrum heilbrigðisráðherra til Píeta samtakanna, auk 13 milljóna króna styrks til Sjúkrahússins á Akureyri.
Þá stofnaði Ásmundur Einar Daðason, fyrrum félags- og barnamálaráðherra, styrktarsjóð sem mun greiða 10 milljónir króna árlega til Íþróttasambands fatlaðra næstu þrjú árin. Hann gerði einnig þriggja ára samning við Píeta samtökin um 25 milljóna króna framlög á næstu þremur árum, auk þess sem hann sagði að 134 milljóna króna stofnframlag yrði veitt til Lýðháskólans á Flateyri fyrir byggingu stúdentagarða.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum dómsmálaráðherra, tilkynnti einnig að Landhelgisgæslan hefði fest kaup á nýju varðskipi, Freyju, í september, en kaupvirði þess nam rúmum 1,7 milljörðum króna. Þar að auki tilkynnti hún á svipuðum tíma að bygging nýs flugskýlis fyrir Landhelgisgæslu Íslands myndi hefjast í vetur, en hún er talin munu kosta 696 milljónir króna.
Hversu miklum útgjöldum lofaði hver og einn ráðherra?
En hvað vill stjórnarandstaðan fá að vita, varðandi þau fyrirheit sem ráðherrar veittu um fjárútlát á meðan þingið var ekki starfandi, frá júní og fram í nóvember?
Í fyrsta lagi er óskað eftir því að fram komi í skýrslunni í hverra þágu framlög, styrkir, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samningar sem kunna að fela í sér fjárútlát úr ríkissjóði voru í hverju tilviki fyrir sig og hvaða fjárheimildir eða samþykktir Alþingis var stuðst við í hverju tilviki fyrir sig.
Einnig vill stjórnarandstaðan að Ríkisendurskoðun fái á hreint hvaða fjárhæðir er um að ræða, sundurgreint eftir ráðherrum, og röksemdir fyrir veitingu einstakra styrkja og sömuleiðis að stofnunin taki saman tímasetningar, skilyrði, fyrirvara eða annað sem geti haft áhrif á framvindu einstakra mála.
Stjórnarandstaðan vill líka að ríkisendurskoðandi upplýsi hvernig hafi verið gætt að skilyrðum 42. gr. laga um opinber fjármál varðandi styrkveitingar, en samkvæmt þeirri lagagrein er ráðherrum heimilt að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna á málefnasviðum sem þeir bera ábyrgð á. Gera þarf grein fyrir útgjöldum slíkra styrkja í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi og í ársskýrslu ráðherra, auk þess sem að við úthlutun þarf að gæta almennra reglna stjórnsýsluréttar um jafnræði, hlutlægni og gagnsæi.