Stjórnarflokkarnir þrír: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, fengu samtals 54,3 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Samkvæmt nýjustu könnun Maskínu hefur sameiginlegt fylgi þeirra dregist saman um 5,2 prósentustig og mælist nú 49,1 prósent. Minnst mælist fylgi þeirra í Reykjavík, þar sem sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist nú 41,3 prósent.
Þrír stjórnarandstöðuflokkar mælast með meira fylgi í dag en þeir fengu í kosningunum 2021. Það eru Píratar, Samfylking og Viðreisn. Samanlagt fengu þessir þrír flokkar 26,8 prósent í síðustu kosningum sem var 1,2 prósentustigi minna en þeir fengu í kosningunum 2017. Töluverður meðbyr mælist með þessum þremur flokkum, sem mynda meirihluta í næst stærsta stjórnvaldi landsins, Reykjavíkurborg, með Vinstri grænum. Samanlagt fylgi þeirra mælist nú 35 prósent. Fylgi þeirra hefur því samanlagt aukist um 8,2 prósentustig frá því í lok september eða um tæplega þriðjung. Bæði Píratar og Samfylking mælast sterkari í Reykjavík en annarsstaðar á landinu og Viðreisn mælist einungis sterkari í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja í höfuðborginni mælist 44,6 prósent, sem er nokkuð hærra en samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja í Reykjavík
Samanlagt fylgi stjórnarandstöðu aukist umtalsvert
Einn flokkur í stjórnarandstöðu stendur nokkurn veginn í stað frá síðustu kosningum, Flokkur fólksins.Fylgi hans mælist nú 8,3 prósent, sem er 0,5 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2021.
Samanlagt fylgi stjórnarandstöðuflokkanna mælist því nú 47 prósent en þeir fengu 41 prósent atkvæða í síðustu kosningum.
Eini flokkurinn sem er ekki með fulltrúa á þingi sem stendur sem mælist í könnun Maskínu er Sósíalistaflokkur Íslands, en fylgi hans mælist 3,7 prósent.
Yngri vilja Pírata, eldri styðja Flokk fólksins
Í könnun Maskínu er fylgi líka brotið niður á breytur á borð við aldur, tekjur, búsetu og menntun. Nokkrar athyglisverðar vísbendingar er hægt að lesa úr því niðurbroti þótt taka verði tillit til þess að fjöldi svarenda var einungis 1.548 alls.
Þannig má sjá að fylgi Pírata, sem bætt hafa flokka mest við sig frá síðustu kosningum, er mun meira hjá yngri fólki en eldra. sömu sögu er að segja um Samfylkinguna. Raunar sýna niðurstöður Maskínu að hjá kjósendum 29 ára og yngri eru báðir þessir flokkar vinsælli en stærsti flokkur landsins, Sjálfstæðisflokkurinn. Það er Framsóknarflokkurinn líka sem þýðir að hjá þessum yngsta kjósendahópi landsmanna er Sjálfstæðisflokkurinn fjórði stærsti flokkurinn.
Hjá næsta aldurshópi fyrir ofan, fólki á fertugsaldri, er Framsóknarflokkurinn stærstur og Píratar fylgja fast á hæla hans. Fylgi Samfylkingarinnar mælist hins vegar undir heildarfylgi hjá þeim aldurshópi.
Fylgi Pírata dalar hins vegar skarpt eftir því sem kjósendur eru eldri. Þróunin er öfug hjá Sjálfstæðisflokknum sem mælist stærsti flokkurinn hjá öllum aldurshópum yfir 40 ára. Í elsta aldurshópnum, 60 ára og eldri, er Flokkur fólksins síðan með afgerandi flesta stuðningsmenn. Alls segjast 13,4 prósent kjósenda í þeim aldurshópi styðja flokk Ingu Sæland. Til samanburðar nýtur hann einungis stuðnings 4,1 prósent landsmanna á fertugsaldri.
Sjálfstæðisflokkur með 16,6 prósent í Reykjavík
Sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir 108 daga. Í könnun Maskínu má sjá hvernig fylgi flokkanna á þingi dreifist eftir búsetu. Eina einstaka sveitarfélagið sem er þar mælt er höfuðborgin Reykjavík, þótt vert sé að taka fram að ekki sé spurt um afstöðu til borgarstjórnarframboða heldur hvaða flokk viðkomandi myndi kjósa á þing.
Samkvæmt könnun Maskínu er stuðningur við þá flokka sem mynda meirihluta í Reykjavík í dag: Samfylkingu, Pírata, Viðreisn og Vinstri græn, mun meiri í höfuðborginni en á landinu öllu. Samtals mældist heildarfylgi þessara flokka 46,2 prósent en í Reykjavík mælist fylgi þeirra 57,3 prósent. Þá mælist fylgi Sósíalistaflokksins meira í Reykjavík en á öðrum stöðum á landinu, eða 4,7 prósent.
Athygli vekur að Píratar mælast stærsti flokkurinn í Reykjavík með 17,7 prósent fylgi. Þar á eftir koma Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin með nánast sama fylgi.
Menntunarstig lykilbreyta hjá sumum flokkum
Þegar kemur að menntun þá nær Sjálfstæðisflokkurinn jafnt til allra menntunarhópa. Sömu sögu er að segja af Sósíalistaflokknum þótt setja verði þann fyrirvara að dreifing atkvæða hans byggir á einungis 58 svörum.
Framsóknarflokkurinn er lítillega sterkari hjá þeim sem eru með minni menntun en þeim sem lokið hafa framhaldsprófi í háskóla og Píratar lítillega sterkari hjá háskólamenntuðum en hjá öðrum kjósendum. Samfylkingin, Vinstri græn og Viðreisn sækja hins vegar mun meiri stuðning til háskólamenntaðra en annarra hópa. Það er sérstaklega eftirtektarvert í tilfelli Samfylkingarinnar, sem nýtur 19 prósent stuðnings hjá þeim sem hafa lokið framhaldsprófi í háskóla en einungis 8,7 prósent hjá þeim sem hafa mest lokið grunnskólaprófi.
Væntanlegir kjósendur Flokks fólksins og Miðflokksins tilheyra nánast allir þeim hópum sem mest lokið hafa grunn- eða framhaldsskólaprófi. Stuðningur við þá flokka á meðal háskólamenntaðra mælist afar lítill.
Þegar horft er á stuðning eftir tekjum vekur mesta eftirtekt að Vinstri græn og Viðreisn njóta meiri stuðnings í efsta tekjuhópnum, hjá þeim sem eru með 1,2 milljónir króna í heimilistekjur á mánuði eða meira, en nokkrum öðrum tekjuhópi en Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn sækja mestan stuðning til lægsta tekjuhópsins, þess sem er með minna en 400 þúsund krónur í tekjur á mánuði.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.548 talsins af öllu landinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 6. til 19. janúar 2022.