Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur gert samkomulag við fjárfestingarfélagið Stoðir hf. um að félagið greiði 3,7 milljónir króna í sáttargreiðslu fyrir að hafa ekki tilkynnt áform sín um að verða virku eigandi í tryggingarfélaginu TM hf. fyrir rúmu ári síðan. Þetta kemur fram í tilkynningu eftirlitsins sem birtist á vef Seðlabankans fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni jók Stoðir við hlut sinn í TM í marsbyrjun í fyrra úr 9,9 prósentum í 11,66 prósent. Með því höfðu Stoðir eignast virkan eginarhlut í tryggingarfélaginu og þremur dótturfélögum þess; Lykli fjármögnun hf., Íslenskri endurtryggingu hf., og TM líftryggingum hf., án þess að tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áformin sín.
Með því að hafa sleppt því að tilkynna Fjármálaeftirlitinu telur Fjármálaeftirlitið að Stoðir hafi brotið lög um vátryggingastarfsemi, en sektir sem lagðar eru á lögaðila vegna þess geta numið frá 100 þúsund krónum til 50 milljóna króna. Einnig er fjárfestingafélagið talið hafa brotið lög um fjármálafyrirtæki, þar sem sektir geta numið frá hálfri milljón króna til 800 milljón króna.
Þar sem brot Stoða taldist ekki meiri háttar var félaginu boðið að greiða 3,7 milljónir í sáttargreiðslu og sleppa þannig við mögulega hærri sektir.