Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ætlar að leggja fram frumvarp um endurskoðaðar og einfaldari reglur um reiknað endurgjald í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila í eigin rekstri í apríl á næsta ári. Markmið þess er að með varna mismunun í skattlagningu úttekta eigenda úr félögum. Þá verður regluverk í kringum tekjutilflutning tekið til endurskoðunar til að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.
Frumvarpinu hefur verið bætt inn á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2021 sagði að skattmatsreglur yrðu endurskoðaðar og að komið verði í veg fyrir „óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“.
Í grein sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson og Róbert Farestveit, hagfræðingar hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), skrifuðu í Vísbendingu í september í fyrra kom fram að skattasniðganga í formi tekjutilflutnings, sem feli í sér að fólk skrái launatekjur sínar ranglega sem fjármagnstekjur, komi í veg fyrir að þeir greiði útsvar og heildarskattprósenta þeirra verður fyrir mikið miklu lægri en ella. Þetta á sér aðallega stað á meðal atvinnurekenda með háar tekjur sem taka þær í gegnum einkahlutafélög.
Skattmat á hlunnindum tekið til endurskoðunar
Kjarninn spurðist fyrir um hvað fælist í þessu stefnumáli ríkisstjórnarinnar fyrr á þessu ári, en hvorki forsætis- né fjármála- og efnahagsráðuneytið gat svarað því.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði í kjölfarið fram fyrirspurn á Alþingi um sama mál, og fékk efnislegt svar við henni frá fjármála- og efnahagsráðherra.
Í því svari sagði að endurskoðun skattmatsreglnanna, til að koma í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga, feli í sér að skattmat á hlunnindum og reglur um reiknað endurgjald verði teknar til einhverskonar endurskoðunar.
Þeir sem eiga einkahlutafélag utan um einhverskonar rekstur eiga að reikna sér laun fyrir þá vinnu sem felst í rekstrinum, sem getur eðli málsins samkvæmt verið allskonar. Ríkisskattstjóri setur árlega reglur um hver lágmarkslaun fyrir störf eigi að vera.
Munur á skattprósentu getur falið í sér hvata
Hæsta skattþrepið í almennum tekjuskatti er 46,25 prósent en samanlagður skattur á hagnað og arðgreiðslur er talsvert lægri, eða 37,6 prósent.
Í svari Bjarna sagði að gætt hafi „tilhneigingar til þess að þeir sem telja fram launatekjur á grundvelli reiknaðs endurgjalds gangi út frá lægstu viðmiðunum sem reglurnar heimila og greiði sér í ríkari mæli út hagnað eða arð af rekstri. Af því leiðir að þeir sem telja fram lægra reiknað endurgjald en rétt mætti telja að séu tekjur þeirra í reynd greiða lægri tekjuskatt til ríkissjóðs en þeir sem starfa hjá ótengdum vinnuveitendum. Lægri reiknuð laun þýða enn fremur að greitt er lægra tryggingagjald og iðgjald til lífeyrissjóðs en ella væri.“
Bjarni sagði að munur á tekjuskatti annars vegar og samanlögðum skattgreiðslum vegna arðs og hagnaðar hins vegar geta falið í sér hvata til að stofna félag utan um atvinnurekstur svo hagnaður skattleggist í lægra hlutfalli en efsta þrepinu. „Þessu til viðbótar er hætta á að því að lögaðilar og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur gjaldfæri útgjöld á rekstur sem rétt væri að þeir beri persónulega af launatekjum sínum. Í því felst ígildi hlunninda eða tekna sem hvorki er greiddur tekjuskattur af í ríkissjóð né launatengd gjöld. Einnig að virðisaukaskattur af einkakostnaði sé talinn fram sem innskattur þannig að skil á virðisaukaskatti í ríkissjóð verði lægri sem því nemur.“
Ætla að skipa starfshóp
Jóhann Páll spurði einnig af hverju það hafi ekki verið gripið fyrr til aðgerða til að sporna við þessum hvötum sem eru innbyggðir inn í skattmatskerfi Íslands. Í svari ráðherra var því ekki svarað beint heldur þar þar meðal annars að í öðrum löndum hafi verið farnar „ýmsar aðrar leiðir en hér á landi til að reyna að samræma skattlagningu á tekjur af mismunandi uppruna en ljóst er að það getur verið vandasamt í framkvæmd.“
Fjármála- og efnahagsráðherra sagði að ríkisstjórnin ætli sér að koma í veg fyrir þessa hvata, í samræmi við fyrirheit í stjórnarsáttmála, með því að stofna sérstakan starfshóp um verkefnið. Erindi þess hóps verður skilgreint í skipunarbréfi. „Þar verður m.a. kveðið á um endurskoðun og einföldun reglna um reiknað endurgjald í eigin atvinnurekstri og samspil við skattlagningu á hagnað og arð sem og skattmat vegna hlunninda og úttekta eigenda úr félögum.“
Ekki hefur verið tilkynnt um skipun þess starfshóps en á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að það verkefni að endurmeta skattmatsreglur sé hafið.