Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að ráðast í miklar breytingar á því hvernig sóttkví vegna útsetningar gagnvart kórónuveirunni er háttað hér á landi.
Frá og með morgundeginum þurfa einstaklingar sem verða útsettir fyrir smiti utan heimilis eða dvalarstaðar síns ekki lengur að fara í sóttkví, en þeir þurfa þess í stað að viðhafa smitgát, samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu, en þessar breytingar voru ræddar á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Sóttkví verður áfram beitt gagnvart þeim sem hafa orðið útsett fyrir smiti innan heimilis síns eða dvalarstaðar.
Þó geta þeir sem eru þríbólusettir og verða útsettir á heimili sínu verið í smitgát, sem lýkur með sýnatöku.
Börn á leik- og grunnskólaaldri verða undanþegin smitgát þrátt fyrir að smit komi upp í skólanum hjá þeim. Þau þurfa hins vegar að fara í sóttkví ef smit er á heimili.
Helstu breytingar, samkvæmt tilkynningu stjórnvalda
Sóttkví verður fyrir þá sem eru útsettir á heimili.
- Skilyrði sóttkvíar verða óbreytt, þ.e. aðskilnaður frá öðrum í fimm daga og PCR-próf til að losna.
- Ef ekki er viðhafður fullur aðskilnaður frá smituðum á heimili lýkur sóttkví með PCR-prófi degi eftir að sá smitaði útskrifast, eins og verið hefur.
- Þríbólusettir (smit telur sem ein bólusetning) á heimili fara þó í smitgát í stað sóttkvíar, sbr. að neðan, sem lýkur með PCR-prófi á fimmta degi.
Smitgát verður fyrir þá sem eru útsettir utan heimilis.
- Í smitgát skal viðkomandi bera grímu í margmenni og þegar ekki verður hægt að viðhafa tveggja metra nándarreglu, úti sem inni. Forðast skal mannmarga staði og sleppa umgengni við viðkvæma einstaklinga.
- Smitgát þarf að viðhafa í fimm daga og ekki þarf sýnatöku til að losna, sbr. þó þríbólusetta sem eru útsettir á heimili.
- Börn á leik- og grunnskólaaldri eru undanþegin smitgát í þessum tilfellum en þurfa að vera í sóttkví ef smit er á heimili.
Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis segir að mörg börn hafi endurtekið þurft að fara í sóttkví og að sérfræðingar í velferð barna hafi bent á að slíkt geti haft neikvæðar afleiðingar. „Því er hér lagt til að börn á leik- og grunnskólaldri þurfi ekki að fara í smitgát eða sóttkví vegna smita í skólunum. Þar sem að núverandi fyrirkomulag sóttkvíar krefst útbreiddrar sýnatöku þá hefur einnig skapast mikið álag á heilsugæsluna sem ber ábyrgð á sýnatökum sem og á sýklaog veirufræðideild Landspítalans og Íslenska erfðagreiningu sem sjá um greiningu sýnanna. Brýnt er því að einfalda allt fyrirkomulag er varðar sóttkví, smitgát, sýnatökur og greiningu COVID-19,“ segir í minnisblaði sóttvarnarlæknis.
Þar segir ennfremur að þar sem alvarleg veikindi af völdum ómíkrón-afbrigðis veirunnar séu til muna fátíðari en af völdum annarra afbrigða sé brýnt að hefja afléttingar á ýmsum takmörkunum, einfalda ýmsa verkferla og leiðbeiningar sem snúa að COVID-19.
„Á þessari stundu tel ég að afléttingar þurfi að hefja með því að einfalda enn frekar ýmsar leiðbeiningar um sóttkví og sýnatökur og í framhaldi af því létta á ýmsum takmarkandi samfélagslegum aðgerðum. Mikilvægt er hins vegar að aflétta í hægum en öruggum skrefum. Þær breytingar sem hér eru lagðar til munu líklega auka smit í skólum og hjá fjölskyldum barna á leik og grunnskólaaldri. Tilslakanir í kjölfarið á ýmsum samfélagslegum aðgerðum munu á hinn bóginn að líkindum leiða til fjölgunar smita í eldri aldurshópum. Mikilvægt er hins vegar að sú fjölgun leiði ekki til fjölgunar á alvarlegum veikindum og spítalainnlögnum,“ segir Þórólfur í minnisblaði sínu.
Þar lætur hann einnig fylgja tillögum sínum að mikilvægt sé að fylgjast með framgangi faraldursins og endurskoða þessar reglur ef þurfa þyki.