Sumarið í Noregi einkenndist af minni úrkomu í suðurhluta landsins en í meðalári. Þetta ástand kom í kjölfar vetrar þar sem snjóað hafði minna en að meðaltali. Þetta óvenjulega árferði er stærsta ástæða þess að uppistöðulón vatnsaflsvirkjana hafa verið rétt hálf full eða rúmlega það þetta haustið.
En skýringanna er ef til vill að leita enn lengra aftur í tímann. Því á ákveðnum svæðum hefur t.d. snjóað mun minna í nokkur ár samfleytt en búast hefði mátt við miðað við árin á undan.
Nú eru ákveðnar blikur á lofti í úrkomunni. Því síðustu daga hefur rignt mikið, en þó á afmörkuðum svæðum, á þessum suðlægu slóðum í Noregi. Þegar hafa fallið um 70 mm af úrkomu í Telemark, svo dæmi sé tekið. Jarðvegurinn var vissulega orðinn þurr svo að hann dregur í sig mikið af regnvatninu en uppistöðulónin munu taka við rest ef fram fer sem horfir.
Þessu hafa Norðmenn í raun beðið eftir því haustrigningarnar eru þekkt fyrirbæri og stundum geta þær verið ofsafengnar. Eitt úrhelli bjargar ekki öllu fyrir horn en það kemur sér sannarlega vel. Úrkoman þarf að vera dreifðari um árið, bæði sem snjór að vetri og rigning að sumri, svo uppistöðulónin fyllist. „Við viljum mikið af rigningu og mikið af snjó,“ hjá orkuveitunni í Austur-Telemark.
En það er ekki nóg að fá staðbundna úrkomu eins og segja má að nú geisi. Til að öll uppistöðulónin njóti góðs af þarf að rigna á mun stærra svæði.
Otraveita, ein stærsta virkjun Noregs, nýtir vatn úr uppistöðulóninu Vatnsdalsvatni, Vatnedalsvatnet í Agder-fylki til vinnslunnar. Hún hefur undanfarið framleitt 25 prósent minna rafmagn en en vant er á þessum árstíma. Samdrátturinn skýrist af vatnsskorti.
Og nú vonast stjórnendur virkjunarinnar eftir því að óvenjulegt árferði sé í hönd. Að það muni á skömmum tíma, áður en það fer að snjóa, rigna um 20-30 prósent meira en venjulega. Það gæti þýtt að lónið myndi fyllast.
Á öðrum svæðum er ástandið enn verra og dæmi eru um að nokkur af stærstu lónunum standi hálf tóm. Yfirborð Blásjós, lóns sem liggur milli fylkjanna Rogalands og Agder, fór niður í um 20 prósent fyrr á þessu ári. Ástandið hefur skánað og nú stendur það í 40-50 prósentum sem er þó verulega undir vatnsmagni sem reikna má með að hausti.
Ekkert vatn rennur þessa dagana úr Blásjó og niður í gegnum virkjanakerfið sem lóninu tengist. Til að safna í lónið þurfti að loka fyrir vatnsrennslið.
Norska orkustofnunin hefur ekki reiknað út hversu mikið þarf að rigna svo að uppistöðulónin fyllist sem flest og rafmagnsframleiðsla farið á fullt stím aftur. Hún bendir á að vatnsskortur í lónunum sé ekki eina ástæða þess að rafmagnsverð í Noregi, sérstaklega syðst í landinu, hefur hækkað mikið síðustu vikur og mánuði. Hækkunin skýrist ekki síst af stríðinu í Úkraínu og orkukrísunni sem átökin hafa valdið í Evrópu.