Ráðgjafafyrirtæki Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra, OG Capital ehf., fékk 1,2 milljóna króna greiðslu frá Orku Energy árið 2012. Þetta er fullyrt í frétt Stundarinnar, og vitnað til heimilda fjölmiðilsins.
Greiðslan fór fram síðla árs 2012, af því er segir í fréttinni, en Illugi hafði þá sest aftur á Alþingi eftir að hafa verið í leyfi frá störfum frá apríl 2010 til október 2011. Greiðslan var verktakagreiðsla en ekki launagreiðsla.
Illugi hefur sagt opinberlega að hann hafi aðeins fengið 5,6 milljóna launagreiðsluna frá Orku Energy og að sú greiðsla hafi verið vegna vinnu sem hann vann árið 2011.
Illugi hefur sjálfur sagt, að hann sé búinn að gera grein fyrir öllum þáttum málsins, og að það hafi verið mistök að gera það ekki strax. Hann telji ekki að hann hafi gert neitt sem orki tvímælis, og að hann hafi ekki verið að ganga erinda Orku Energy í sínum embættisfærslum.
Þá hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gert lítið úr málinu, og sagt það af og frá að Illugi þurfi að hætta sem ráðherra í ríkisstjórn vegna málsins. Hann hafi gert grein fyrir öllum atriðum sem máli skipta.
Ný frétt: Illugi Gunnarsson hefur sagt að hann hafi ekki starfað fyrir Orku Energy eftir að hann varð þingmaður. Samkvæ... Posted by Stundin on Wednesday, October 14, 2015