Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti bankans í 3,75 prósent í morgun. Um er að ræða eins prósentustiga hækkun frá því sem áður var og alls hafa vextir hækkað um þrjú prósentustig frá því í maí í fyrra, þegar vaxtaákvörðunarferli Seðlabanka Íslands hófst.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar segir að efnahagshorfur hafi heldur versnað frá febrúarspá Seðlabankans vegna neikvæðra áhrifa innrásar Rússlands í Úkraínu. Á hinn bóginn séu vísbendingar um talsverðan þrótt innlendra umsvifa. „Slakinn í þjóðarbúinu virðist horfinn og spenna tekin að myndast á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir 4,6 prósent hagvexti í ár en að hann verði tæplega 3 prósent á næstu tveimur árum.“
Verðbólga mældist hins vegar 7,2 prósent í apríl og hefur ekki mælst meiri frá 2010. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5 prósent. Horfur hafa því versnað verulega og verðbólgan er órafjarri markmiði bankans. Í yfirlýsingunni segir að enn sem fyrr vegi hækkun húsnæðisverðs og annarra innlendra kostnaðarliða þungt auk þess sem alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hafi hækkað mikið. „Verðhækkanir eru því á breiðum grunni sem endurspeglast í hraðri aukningu undirliggjandi verðbólgu sem mælist nú ríflega 5 prósent. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað á alla mælikvarða. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga aukist í rúmlega 8 prósent á þriðja fjórðungi ársins sem er 2,8 prósentum meiri verðbólga en spáð var í febrúar. Gert er ráð fyrir að samspil vaxtahækkana og hertra lánþegaskilyrða muni hægja á verðhækkun húsnæðis og innlendri eftirspurn.“
Næsti vaxtaákvörðunardagur er í júní.
Aðrar aðgerðir Seðlabankans hafa ekki bitið
Hækkandi húsnæðisverð er svo stærsti þátturinn í þeirri stórauknu verðbólgu sem mælist á Íslandi og vaxtahækkuninni er ætlað að reyna að hemja. Seðlabanki Íslands hefur reynt ýmislegt til að stemma stigu við ástandinu fyrir utan að hækka vexti skarpt, eða úr 0,75 í 3,0 prósent á einu ári.
Í september í fyrra ákvað fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands einnig að setja reglur um hámark greiðslubyrðar á fasteignalánum og endurvekja hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka. Áður hafði nefndin lækkað hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda lækkað úr 85 í 80 prósent en hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur hélst óbreytt í 90 prósent.
Enn sem komið er hafa þessar aðgerðir Seðlabankans ekki bitið sem neinu nemur. Þvert á móti hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 3,1 prósent í síðasta mánuði. Síðasta mælda árshækkun á höfuðborgarsvæðinu mældist um 22 prósent. Þetta er afrakstur þess að eftirspurn hefur verið langt umfram framboð. Í síðustu birtu mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kom fram að framboð íbúða til sölu hafi verið undir eitt þúsund á landinu öllu í byrjun mars. Það er þó ofmat á framboðinu því um þriðjungur íbúðanna voru þegar komnar í fjármögnunarferli og því búið að samþykkja tilboð í þær. Til samanburðar fór það í fyrsta sinn niður fyrir tvö þúsund íbúðir í mars í fyrra.
Dýr lán og gríðarleg samkeppni um allt húsnæði sem býðst til sölu gerir það að verkum að fleiri lántakar eru að færa sig í þau lán sem bera lægstu afborganirnar. Það eru verðtryggð lán, en hin mikla verðbólga sem nú er gerir þau lán þó afar óhagstæð, enda leggst verðbólgan sem verðbætur á höfuðstól þeirra lána.
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um útlán banka landsins þá tók landsmenn verðtryggð lán á föstum vöxtum fyrir 3,5 milljarða króna í mars. Þeir hafa ekki tekið jafn mikið af slíkum lánum síðan í desember 2016.