„Til okkar hafa leitað félagsmenn, ellefu talsins, sem hafa ekki fengið greidd laun vegna vinnu við myndina og við erum að reyna að aðstoða þá eftir fremsta megni,“ segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna. Vinna við myndina Sumarbörn, sem fékk einn hæsta styrkinn úr Kvikmyndasjóði Íslands í fyrra, 90 milljónir króna, er nú í nokkurri óvissu þar sem starfsfólk hefur ekki fengið greidd laun að fullu fyrir vinnu sína. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og auðvitað vonumst við eftir því að úr þessu verði leyst og starfsfólkið fái launin greidd sem það á inni sem allra fyrst.“ Lögfræðingar, fyrir hönd þeirra sem eiga laun inni, hafa sent framleiðendum myndarinnar bréf og krafist þess að launin verði greidd hið fyrsta.
Hrafnhildur segir málið líka viðkvæmt þar sem stór hópur barna hafi verið meðal leikara í myndinni og að þau hafi ekki fengið greidd laun eins og um hafi verið samið í upphafi. Ekki síst í ljósi þess skipti máli að framleiðandi myndarinnar, fyrirtækið Ljósband, standi við sitt.
Í forsvari fyrir Ljósband eru Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir, sem hafa mikla reynslu af kvikmyndagerð og framleiðslu.
Hrönn sagði í samtali við Kjarnann að henni þætti mjög leitt að ekki hefði tekist að greiða laun að fullu. Hún sagði ekki vera neinn skort á greiðsluvilja og að þau sem að framleiðslu myndarinnar stæðu ætluðu sér að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að standa í skilum við alla þá sem ættu inni laun vegna Sumarbarna, bæði starfsfólk og leikara. Vonir stæðu jafnvel til þess að hægt yrði að gera það fyrir næstu mánaðamót og að framleiðendurnir væru í samskiptum við foreldra þeirra barna sem ættu inni laun vegna myndarinnar. Allt yrði gert til þess að greiða fólki það sem það ætti inni vegna myndarinnar.
Hrönn sagði enn fremur að málið snerist ekki síst um það að ekki hefði tekist að losa um fjármagn til þess að greiða fólki í takt við það sem um hefði verið samið. „Kvikmyndin er þó fullfjármögnuð,“ segir Hrönn, en hið 90 milljóna króna framlag úr Kvikmyndasjóði dekkaði aðeins hluta kostnaðarins við myndina. Þá hefði auk þess ekki náðst að fá endurgreiddan virðisaukaskatt, eins og reiknað hefði verið með, og það hefði gert erfiða stöðu enn þyngri.
Heildarkostnaður við myndina er áætlaður 214 milljónir króna, en Guðrún Ragnarsdóttir er leikstjóri myndarinnar. Um mjög metnaðarfullt verkefni er að ræða og er meðframleiðandi myndarinnar norskur.
Myndin segir sögu systkina sem eru send frá ástvinum sínum á stað þar sem þeim er ekki sinnt. Þau þrá að komast aftur heim. Inn í söguna fléttast frásagnir af hinum börnunum á barnaheimilinu og aðstæðum þeirra. Aðalpersónan flýr á vit ímyndunar og svo kemur hestur og eigandi hans við sögu, að því er sagði í umfjöllun RÚV um myndina, hinn 27. október í fyrra, í tilefni af því að tökum á myndinni lauk.