Ábati íslensks samfélags af lagningu Sundabrautar gæti orðið á bilinu 186-236 milljarðar króna, samkvæmt félagshagfræðilegri greiningu frá verkfræðistofunum Mannviti og COWI, sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veittu formlega viðtöku í gær.
Í krónum talið yrði ábatinn á því 30 ára tímabili sem greiningin tekur til mestur ef ákveðið verður að Sundabrautin liggi í jarðgöngum undir Kleppsvík, samkvæmt því sem segir í skýrslunni, eða 236 milljarðar króna.
Jarðgöngin á milli Gufuness og Laugarness eru þó dýrari valkostur en brú yfir Kleppsvíkina og er svokallað nytja-kostnaðarhlutfall brúarvalkosta hærra og innri vextir þeirra framkvæmda sömuleiðis, sem þýðir að meira fæst til baka í samfélagslegan ábata fyrir hverja krónu sem lögð er út vegna brúargerðar.
Ástæðan fyrir því að ábati af jarðgöngum er metinn meiri í krónum talið en brúarvalkostirnir, sem sagðir eru skila 185 og 208 milljarða króna samfélagslegum ábata, er sú að færri vegamót eru í Sundagöngum og stærri hluti leiðarinnar í frjálsu flæði – og því minni tafir fyrir ökumenn.
Eknum kílómetrum fækki verulega en bílferðum fjölgi líka
Í skýrslunni kemur fram að mestur ábati við lagningu Sundabrautar felist í færri eknum kílómetrum, minni útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Þar er þess þó einnig getið, í umfjöllun um áhrif á umferð einkabílsins, að minni umferðartafir og styttri ferðatími þýði að „fleiri muni velja bílinn sem sinn samgöngumáta, og fleiri bílar muni koma á göturnar“ sem dragi að einhverju leyti úr styttingu ferðatíma og fækkun ekinna kílómetra, sem þó er umtalsverð eða á bilinu 128-140 þúsund kílómetrar daglega.
Þannig er gengið út frá því í skýrslunni að Sundabraut muni fjölga bílferðum, miðað við að engin Sundabraut verði byggð, á kostnað bæði ferða með almenningssamgöngum og ferðum á hjóli. Talið að að daglegum bílferðum muni fjölga um 2.550-5.000 með tilkomu Sundabrautar – mest ef jarðgöng verði fyrir valinu.
Niðurstaða greiningarinnar frá Mannviti og COWI er þó sú að Sundabraut, hvort heldur sem er í jarðgöngum eða um brú, hafi mikinn samfélagslegan ávinning og sé metin samfélagslega hagkvæm framkvæmd sem slík.
Í tilkynningu innviðaráðuneytisins vegna málsins segir frá því að vinnu starfshóps um Sundabraut, sem hóf störf í júní árið 2020, sé nú formlega lokið, en hópurinn skilaði skilagrein til ráðherra og borgarstjóra samhliða afhendingu félagshagfræðilegu greiningarinnar.
Næstu skref eru sögð þau að Vegagerðin vinni að undirbúningi á mati á umhverfisáhrifum og rannsóknum í samstarfi við Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir og Reykjavíkurborg vinni að undirbúningi nauðsynlegra skipulagsbreytinga.
„Gert er ráð fyrir að mat á umhverfisáhrifum og nauðsynlegar skipulagsbreytingar taki 2 til 3 ár, frekari rannsóknir og hönnun 2 ár og útboðsferli stórrar framkvæmdar um 1-2 ár. Þessa verkhluta má vinna að einhverju leyti samhliða og miðar allur undirbúningur við að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2026 og að Sundabraut frá Sæbraut að Kjalarnesi verði lokið árið 2031,“ segir í tilkynningu innviðaráðuneytisins og Vegagerðarinnar.
Sigurður Ingi segir að grafan mæti árið 2026
Í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu er haft eftir Sigurði Inga að niðurstöðurnar staðfesti þá sannfæringu hans „að Sundabraut muni hafa gríðarlega þýðingu fyrir samgöngur og mun umbylta umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.“
„Sundabraut mun dreifa álagi, leysa umferðarhnúta og styrkja öryggisleiðir. Sundabrautin mun auk þess stytta vegalendir fyrir alla þá sem ferðast innan og til og frá höfuðborgarsvæðinu – óháð ferðamáta. Með þessa greiningu í farteskinu getum við nú brett upp ermar og hafist handa við að undirbúa framkvæmdir sem hafist geti innan fárra ára,“ er haft eftir ráðherra, sem bætir um betur í færslu á Facebook-síðu sinni boðar þar að framkvæmdum við Sundabraut muni ljúka árið 2031.
„Tíminn næstu fjögur árin verður nýttur vel með samtölum við íbúa og aðila í nærumhverfi, breytingum á skipulagi og gerð umhverfismats og hönnun fer af stað á næstunni. Útboðsferlið tekur þrjú til fjögur ár og í framhaldi mætir grafan á staðinn árið 2026 og framkvæmdum lýkur með þverun Kollafjarðar árið 2031,“ skrifar Sigurður Ingi á Facebook.
Sundabrautin er í traustum farvegi. Hún verður ein stærsta einstaka vegaframkvæmd Íslandssögunnar, fyrir utan kannski...
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Tuesday, January 25, 2022
Samráð við íbúa og hagsmunaaðila lykilatriði við leiðarvalið
Haft er eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í sömu tilkynningu að með sameiginlegri yfirlýsingu borgar og ríkisins síðasta sumar, þess efnis að Sundabraut verði lögð í einnig framkvæmd og tekin í notkun 2031, hafi Sundabrautarmálið komist í traustan og góðan farveg.
„Félagshagfræðileg greiningin sem nú liggur fyrir er mikilvægur áfangi en segja má að samkvæmt henni sé minni munur en á þeim kostum sem hafa verið til skoðunar, Sundabraut á brú og Sundabraut í göngum,“ er haft eftir Degi í tilkynningunni, en í því samhengi má rifja upp að samráð við íbúa í Laugardal og Grafarvogi fyrr á öldinni varð til þess að borgin gerði þá stefnu að sinni að Sundabraut skyldi leggja í jarðgöngum.
„Í samræmi við samkomulagið eru næstu skref þau að vinna ítarlegt umhverfismat þar sem þessir báðir þessir kostir verða bornir saman við núll-kost. Umhverfismatið og samráð við íbúa og hagsmunaaðila beggja vegna Kleppsvíkur verður lykilatriði við endanlegt leiðarval. Við útfærslu beggja leiða verða allir umhverfisþættir og mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi sérstaklega skoðað. Þá liggur einnig fyrir að hagmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi verða teknir inn í myndina ásamt hafnarstarfsemi,“ er einnig haft eftir Degi í tilkynningunni frá innviðaráðuneytinu.
Hagfræðistofnun HÍ telur tímavirði of hátt metið
Í skilagrein starfshópsins um Sundabrautina segir að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafi verið fengin til þess að rýna helstu forsendur greiningarinnar og niðurstöður Mannvits og COWI.
Fram kemur að Hagfræðistofnun telji mikilvægt að betri forsendur liggi fyrir varaðndi nokkra grunnþætti sem liggi til grundvallar greiningum sem þessari, t.d. mat á tímavirði íbúa á höfuðborgarsvæðinu, forsendur fyrir ferðamátavali í samgöngulíkani, tölfræðilegt mat á verðmæti mannslífa í tengslum við mat á ábata vegna umferðarslysa og mat á verðmæti umhverfis.
Þá segir frá því að Hagfræðistofnun hafi leitt líkum að því að samfélagsábatinn í greiningu Mannvits og COWI væri ofmetinn, þar sem tímavirði notenda væri metið of hátt, en ekki liggi fyrir ítarlegar rannsóknir á tímavirði hérlendis.
Á móti telji Hagfræðistofnun þó að töluvert hátt álag sé á áætlaðan stofnkostnað við framkvæmdina, sem greiningin taki mið af, og að mikilvægt sé að horfa til kostnaðar sambærilegra verkefna.