Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Árborg segir fyrirsjáanlegt að vöruflutningar úr austri og til Þorlákshafnar muni aukast stórkostlega á næstu árum, jafnvel þrátt fyrir að ekki kæmi til þeirra stórfelldu vikurflutninga úr landi Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi sem áætlanir eru uppi um að ráðast í af hálfu þýska fyrirtækisins STEAG Power Minerals.
Bæjarstjórinn segir í svari til Kjarnans að hann og pólitísk forysta bæjarstjórnar hafi vakið athygli á því að útlit sé fyrir mjög aukna flutninga í gegnum Selfoss og að þessi mál hafi verið rædd margoft á fundum með Vegagerðinni og einnig við alþingismenn og ráðherra, er þeir hafi rekið á fjörur Árborgara.
Hann segir að sveitarfélagið hafi þegar gripið til aðgerða til að leysa fyrirsjáanlegan vanda til næstu örfárra ára, en það hafi reyndar ekki verið gert með þá stórfelldu vikurflutninga sem fyrirhugaðir eru um Suðurlandið til hliðsjónar.
Viðbrögðin fólust í því að leggja vegbút sem lengir götuna Suðurhóla, sem liggur í jaðri byggðar á Selfossi, yfir á Gaulverjabæjarveg. Þessi ráðstöfun kemur í veg fyrir að allir vöruflutningar frá austri til vesturs þurfi að fara um Austurveg, sem kalla má aðalgötuna í bænum og er hluti af þjóðvegi 1 í dag.
„Suðurhólarnir í Árborg liggja hinsvegar í gegnum íbúabyggðir á Selfossi og henta engan veginn fyrir stóraukna flutninga framtíðarinnar, með eða án vikurflutninganna frá Mýrdalssandi. Þetta höfum við bent Vegagerðinni og stjórnmálamönnum á,“ segir Gísli Halldór.
Nýr vegur suður af Selfossi eða um Ölfusið
Selfyssingar munu losna við þjóðveg 1 út úr bænum þegar ný brú yfir Ölfusá verður tilbúin, en þegar hún verður komin í notkun mun þó áfram liggja beinast við að beina þeim vöruflutningum sem koma að austan og til Þorlákshafnar eða áfram út á Reykjanes í gegnum þéttbýli bæjarins.
Bæjarstjórinn segir að með eða án þeirra miklu vikurflutninga sem fyrirhugaðir eru frá Mýrdalssandi sé fyrirsjáanlegt að vöruflutningar þessa leiðina aukist stórkostlega. Áhrifaþætti í því segir hann vera stóraukið fiskeldi á Austfjörðum og sömuleiðis aukna matvælaframleiðslu á Suðurlandi.
Gísli Halldór bendir á tvær leiðir, sem hann segir hugsanlegar til lausnar. Önnur væri sú að byggja upp nýjan veg nokkuð suður af Selfossi. Segir hann bæjaryfirvöld hafa bent á staðsetningu Votmúlavegar í því sambandi, en að ef til vill ætti slíkur vegur að vera enn sunnar.
„Hin leiðin er að fara að Hveragerði og þaðan suður Ölfusið til Þorlákshafnar, sem er sú leið sem Vegagerðin horfir mest til. Í báðum tilvikum þarf að byggja upp nýjan veg. Ég læt aðra um að dæma hvor leiðin er heppilegri. Beinasta leiðin austan að til Þorlákshafnar liggur auðvitað í gegnum Árborg, en okkur er síst af öllu kappsmál að fá alla þessa þungaumferð í gegnum sveitarfélagið. Umfram allt viljum við þó leggja okkar af mörkum til að stuðla að farsælli lausn,“ segir Gísli Halldór.
Áhugi hjá Rangæingum á að nýta Landeyjahöfn meira
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að fyrirhugaðir vikurflutningar frá Mýrdalssandi hafi til umræðu á vettvangi sveitarstjórnarinnar.
„Vissulega höfum við velt þessu fyrir okkur og bent á þessa gríðarlegu umferð sem þessu myndi fylgja. Undanfarinn áratug hefur verið sívaxandi álag á Þjóðveg 1 og myndi þetta síður en svo draga úr því álagi,“ segir Lilja.
Landeyjahöfn er í Rangárþingi ytra, en eins og rakið var í umfjöllun Kjarnans í gær var viðrað í umsögn um tillögu að matsáætlun vegna vikurnámsins á Mýrdalssandi að skoðað yrði hvort hægt væri að skipa vikrinum upp í Landeyjahöfn, en ekki í Þorlákshöfn.
Í athugasemdum sem verkfræðistofan Efla sendi Skipulagsstofnun fyrir hönd framkvæmdaaðilans sagði að það hefði verið skoðað á fyrri stigum, en í ljós hefði komið að samkvæmt lögum og reglugerðum um Landeyjahöfn megi einungis nýta höfnina undir siglingar með farþega til og frá Vestmannaeyjum.
Lilja segir þó að það hafi verið áhugi hjá sveitarstjórninni um að „nýta Landeyjahöfn meira en gert er í dag,“ en fullljóst sé að það til þess þyrfti að koma til endurbóta og uppbyggingar á höfninni sjálfri og svæðinu umhverfis hana. „En Landeyjahöfn er á höndum ríkisins sem er afar óvenjulegt,“ bætir sveitarstjórinn við.
Hún segir hlutaðeigandi aðila hafa viðrað þessa umræðu við fyrri sveitarstjóra í Rangárþingi eystra og að sveitarstjórnin hafi alltaf verið opin fyrir umræðu um hvers konar uppbyggingu og ný tækifæri sem varði Landeyjahöfn.
Á Hellu er fólk hugsi
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, segir í svari til Kjarnans að sveitarstjórnin þar hafi ekki fengið neina kynningu á málinu né beiðni frá Skipulagsstofnun um að veita umsögn um það.
„Höfum bara séð þetta í fréttum,“ segir Ágúst, um fyrirætlanir STEAG Power Minerals og fyrirhugað umfang vikurflutninga, sem leið liggur um Suðurlandið og þar með í gegnum þéttbýlið á Hellu.
Hann segir bæjaryfirvöld „að sjálfsögðu hugsi yfir málinu“ en að sérstök umræða hafi ekki verið tekin um það, enn sem komið er.