Ungir sjálfstæðismenn hvetja Ásmund Friðriksson til þess að biðja íslenska múslima afsökunar á ummælum sínum um að kanna eigi bakgrunn múslima hér á landi. Þetta kemur fram í ályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem var send til fjölmiðla rétt fyrir hádegi.
„Mikilvægt er að leiðtogar heimsins gefi ekki eftir í baráttunni gegn hryðjuverkahópum eins og Íslamska ríkinu, en reyni jafnframt á sama tíma að sporna við því að minnihlutahópar sæti ofsóknum vegna trúarskoðana sinna," segir í ályktuninni. Þá segir að vegna þessa sé það virkilega óviðeigandi og til umhugsunar að maður sem á sæti á æðstu stofnun Íslendinga láti ummæli sem þessi falla.
„Sjálfsögð borgararéttindi minnihlutahópa falla ekki niður vegna hryðjuverkaárása ofstækismanna. Ummæli Ásmundar eru aðeins til þess fallin að stuðla að félagslegri einangrun múslima á Íslandi.“
Þá segja ungir sjálfstæðismenn að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið mikilvægt afl í mannréttindamálum á Íslandi og ummæli eins og Ásmundar séu í engu samræmi við grunngildi flokksins um einstaklingsfrelsi og borgararéttindi.
Eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag hafði Magnús Júlíusson, formaður SUS, tjáð sig um málið á Facebook fyrir hádegi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi formaður Heimdallar, gerði slíkt hið sama. Þau voru bæði harðorð í garð Ásmundar.