„Það á ekki að vera eitt af hlutverkum hins opinbera að standa í rekstri trúfélaga,“ segir í fréttatilkynningu frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna, SUS, en það leggst gegn því að framlög til kirkjumála verði aukin.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er gert ráð fyrir að framlög til málaflokksins hækki um tæpar 410 milljónir króna. Framlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar hækka um rúmar 70 milljónir króna eða 4,8% á milli ára.
Við leggjumst gegn auknum framlögum ríkisins til kirkjumála Ríkið styrki ekki trúfélög - mbl.is http://t.co/gFj9ivSe2U via @mblfrettir
Auglýsing
— Ungir sjálfstæðism. (@ungirxd) September 8, 2015
Í fréttatilkynningunni segir að óeðlilegt sé að ríkisvaldið geri einu trúfélagi hærra undir höfði en öðrum og mikilvægt sé að gætt sé „jafnræðis svo öll trú- og lífsskoðunarfélög sitji við sama borð“. Er því brýnt að aðskilja ríki og kirkju sem allra fyrst. „Þeir einstaklingar sem kjósa að tilheyra trú-eða lífsskoðunarfélagi komi að því að reka og fjármagna viðkomandi félag“ segir í tilkynningu SUS.
Eins og greint var frá í dag, þá gera fjárlög ársins 2016 ráð fyrir því að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 15,3 milljarðar króna.
SUS fagnar fyriráætlunum um að lækka tekjuskatt á einstaklinga en segir íslenska ríkið enn „gríðarlega skuldsett“ og mikilvægt sé að grynnka á skuldum hratt og örugglega.