Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja um einn mánuð reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.
Hún frestar því þar með, að minnsta kosti um einn mánuð, að gera breytingar á reglugerðinni sem félög lækna hafa lagst eindregið gegn, en samkvæmt tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins í dag mun reglugerðin nú gilda út maímánuð í óbreyttri mynd.
Boðaðar reglugerðarbreytingar voru kynntar í samráðsgátt stjórnvalda fyrr í þessum mánuði og þangað bárust harðorðar umsagnir frá aðilum á borð við Læknafélag Íslands, Félag almennra lækna og einnig Læknafélagi Reykjavíkur (LR).
Reglugerðarbreytingarnar sem Svandís hafði lagt fram til samráðs fólu meðal annars í sér að læknar sem innheimta aukagjöld frá sjúklingum sínum við Sjúkratryggingar Íslands gætu ekki lengur boðið upp á ríkisniðurgreidda heilbrigðisþjónustu og virðast hafa verið ákveðið innlegg í deilur um framtíðarfyrirkomulag varðandi kaup Sjúkratrygginga á þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna.
Samningaviðræður standa þessa dagana yfir á milli sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og Sjúkratrygginga Íslands og hafa yfirlýsingar flogið á milli aðila í fjölmiðlum. Sumir gagnrýnendur heilbrigðisráðherra hafa haldið því fram að verið sé að taka skref í átt að því að gera heilbrigðiskerfið tvöfalt.
Ekkert sé „jafn fjarri lagi“
Heilbrigðisráðherra heldur því hins vegar fram að ekkert sé jafn fjarri lagi og að verið sé að taka skref í þá átt að skapa tvöfalt heilbrigðiskerfi hér á landi. Þetta kom fram í grein Svandísar sem birtist í Kjarnanum í gær.
Þar sagði ráðherra að samkvæmt heilbrigðisstefnu til 2030, sem samþykkt var mótatkvæðalaust á þingi árið 2019, væri ljóst að ekki væri raunhæft að semja við Læknafélag Reykjavíkur á sömu forsendum og áður hefur verið gert. Í heilbrigðisstefnunni væri lögð áhersla á að heilbrigðisþjónusta sé veitt af þeim sem geti boðið upp á heildstæða þjónustu með teymisvinnu starfsstétta.
Sagði LR vilja að læknar geti ákveðið gjaldtöku einhliða
Heilbrigðisráðherra sagði ennfremur í grein sinni að margir sérgreinalæknar hefðu tekið upp á því að láta sjúklinga greiða umtalsvert aukagjald og að látið hafi verið að því liggja að því megi auðveldlega koma í lag með því að ríkið semdi við LR á þeim sömu nótum.
„Með þessu vill LR raunverulega meina að það sé á valdi lækna að ákveða einhliða um gjaldtöku fyrir þjónustuna. Augljóst er að slík nálgun getur ekki gengið,“ skrifaði Svandís.
Beinir tilmælum til sérgreinalækna
Í tilkynningu á vef ráðuneytisins um að búið sé að framlengja reglugerðina í óbreyttri mynd segir að aukagjöldin sem sérgreinalæknar hafi lagt ofan á þjónustu sína standi „því kerfi fyrir þrifum sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.“
„Heilbrigðisráðherra beinir þeim tilmælum til sérgreinalækna sem hyggjast hafa milligöngu um endurgreiðslur sjúkratrygginga á hlut sjúklinga sinna að þeir starfi í samræmi við greiðsluþátttökukerfið sem tryggir sjúklingum sanngjarna greiðsluþátttöku,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Draga muni úr þörf fyrir þjónustu stofulækna
Í grein Svandísar í Kjarnanum í gær kom fram að þjónusta sérgreinalækna á einkareknum stofum væri mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfinu, en væri þó einungis 6-7 prósent af heilbrigðisþjónustunni. Og að það hlutfall myndi enn lækka.
„Með auknu aðgengi að heilsugæslu og aukinni dag- og göngudeildarstarfsemi sjúkrahúsa mun draga úr þörf fyrir þjónustu stofulækna. Ungir læknar í dag kjósa í vaxandi mæli að starfa með öðrum fagstéttum í teymisvinnu. Markmiðið með núverandi heilbrigðisstefnu er að þetta verði orðið að veruleika í síðasta lagi árið 2030. Hlutverk mitt er að fylgja markaðri stefnu, heilbrigðisstefnu, og það geri ég og mun gera áfram,“ ritaði Svandís.
Í tilkynningu ráðuneytisins í dag segir að heilbrigðisráðherra árétti að brýnt sé að samningar náist um þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna.