Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og þingmaður Vinstri grænna, sem situr í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa er sögð tala mjög fyrir uppkosningu í Norðvesturkjördæmi, samkvæmt forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag.
Þar kemur einnig fram að þingmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar muni kjósa gegn staðfestingu kjörbréfa en óljóst sé hvort þingmenn Vinstri grænna muni fylgja Svandísi, beiti hún sér fyrir uppkosningu. Svandís segir við Fréttablaðið að hún hafa talað opið fyrir báðum niðurstöðum en finnist allt of bratt að hrapa að niðurstöðu um staðfestingu kjörbréfa.
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata og nefndarmaður í nefndinni, sagði við Kjarnann á miðvikudag að sér heyrðist það vera ríkjandi skoðun hjá meirihluta nefndarmanna að seinni talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi skuli gilda. Þetta segir hann þó ekki vera einróma álit nefndarmanna, og sjálfur væri hann ekki á þessari skoðun, en að línurnar lægju á þessum slóðum. „Að meðaltali er skoðunin nær seinni talningunni, en allir eru með fyrirvara um að skoðun sín geti breyst.“
Talið er að fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins í nefndinni séu allir á þeirri skoðun og ef þingmenn þeirra fylgi þeim þá mun það duga til að vera með meirihluta þegar kosið verður um kjörbréf, en saman hafa flokkarnir 35 þingmenn af 63. Þannig yrðu kynntar niðurstöður kosninganna ekki settar í uppnám.
Þing sett á þriðjudag og kosið um uppkosningu á fimmtudag
Undirbúningsnefndin á samkvæmt verklagsreglum sínum að nálgast verkefni sitt og þar með talið tillögugerð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og lögfræðilegs mats. Vinna nefndarinnar er þó hvorki bindandi fyrir kjörbréfanefnd né þingmenn, sem hafa að endingu það stjórnarskrárbundna hlutverk að skera úr um hvort að þeir og samþingmenn þeirra séu löglega kosnir.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans veður þingsetning í fyrsta sinn frá kosningum á þriðjudag í næstu viku. Til stendur að kjósa um niðurstöðu kjörbréfanefndarinnar tveimur dögum síðar, eða á fimmtudag. Þá mun liggja fyrir hvort úrslit kosninganna eftir endurtalningu verði staðfest af þingmönnum eða hvort kjósa þurfi aftur í Norðvesturkjördæmi.