Sveitarstjórn Mýrdalshrepps segir þann valkost að færa hringveginn í Mýrdal ofan við byggðina í Vík ekki koma til greina. Aðrir kostir sem ekki fela í sér strandveg, jarðgöng í gegnum Reynisfjall og veg meðfram Víkurfjöru, koma ekki heldur til greina þar sem sveitarstjórnin leggur áherslu á „sléttan láglendisveg“ – og að hringvegurinn verði færður út úr þéttbýli.
Það markmið hinnar áformuðu framkvæmdar Vegagerðarinnar, sem nú er í umhverfismati, hefur reyndar verið gagnrýnt af Skipulagsstofnun. Að hennar mati ættu markmiðin að lúta að atriðum eins og öryggi, hljóðvist og þeirri þjónustu sem veginum er ætlað að sinna fyrir samfélagið á svæðinu og umferð um svæðið, fremur en að fela í sér tiltekna valkosti um legu vegarins. „Í matsáætlun eru ekki lögð fram gögn sem rökstyðja þörfina á þessu markmiði eða sýnt fram á að ekki sé unnt að ná fram ásættanlegu öryggi og hljóðvist í þéttbýlinu með endurbótum á núverandi vegi og viðeigandi útfærslu hans og hönnun, svo sem með tilliti til umferðarhraða.“
Núverandi vegur liggur yfir háls sem nefnist Gatnabrún. Á honum eru nokkrar krappar beygjur og 10-12 prósent halli en mest fer vegurinn í rúmlega 100 metra hæð. Bæði í aðalskipulagi Mýrdalshrepps og Samgönguáætlun stjórnvalda eru settar fram áætlanir um strandveg með jarðgöngum en sú veglagning hefur sætt töluverðri gagnrýni, bæði meðal íbúa í Mýrdal sem og víðar á landinu og jafnvel erlendis, sem og hjá ýmsum stofnunum og náttúruverndarsamtökum. Er þar hin einstæða náttúra, m.a. fjölskrúðugt fuglalíf strandsvæðisins, helst nefnd enda myndi vegurinn m.a. liggja í nágrenni eða yfir Dyrhólaós, sjávarleirur með sérstæðum lífsskilyrðum sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.
Skipulagsstofnun gaf nýverið álit sitt á matsáætlun framkvæmdarinnar með skilyrðum. Þá er næsta skref Vegagerðarinnar að gera umhverfismatsskýrslu, þar sem ítarlega á að fara yfir alla þá sjö valkosti sem settir eru fram um mögulega veglínu og meta áhrif hvers og eins þeirra á umhverfið.
Í umsögn sveitarstjórnar Mýrdalshrepps við matsáætlunina eru tveir valkostir slegnir afgerandi út af borðinu. Sá kostur að gera lagfæringar á núverandi veglínu, líkt og það er orðað hjá Vegagerðinni, en leggja hann svo norðan byggðarinnar í Vík til að sneiða fram hjá þéttbýlinu, fær algjöra falleinkunn hjá sveitarstjórn sem segir vandséð að slíkur vegur gæti uppfyllt kröfur um umferðaröryggi. Þar fyrir utan myndi hann liggja um framtíðar byggingar- og útivistarsvæði í efri hluta bæjarins og myndi þvera svæði sem nú er verið að deiliskipuleggja fyrir nýja íbúðabyggð í austurhluta bæjarins.
Þá kemur hluti valkosts 1b, sem gerir ráð fyrir að vegurinn verði lagður meðfram fjörunni í Vík sunnan við iðnaðarsvæði ekki heldur til greina að mati sveitarstjórnar þar sem samþykkt hafi verið deiliskipulag um stækkun iðnaðarhverfisins.
Samtök íbúa og hagsmunaaðila um ábyrgar skipulags- og samgöngubætur í Mýrdal vöktu sérstaka athygli á þessu í umsögn sinni um matsáætlunina. Á meðan Vegagerðin vinni að því að skoða og meta hvaða kostir séu í stöðunni til að ná því markmiði sveitarfélagsins að taka þjóðveginn út úr þéttbýli vinni sveitarfélagið „af fullum krafti gegn þessu sama markmiði“.
Ef valkostur um veg með jarðgöngum verði af einhverjum orsökum ekki framkvæmanlegur, þá sé sveitarfélagið að deiliskipuleggja íbúðabyggð beint ofan í eina valkostinn sem gæfi möguleika á að taka veginn út fyrir þéttbýlið. „Skilja má það sem svo að sveitarfélagið sé með vísvitandi hætti að beita sér fyrir að ákveðnir veglínukostir verði settir inn.“
Samtökin benda ennfremur á að nú sé unnið að nýju aðalskipulagi Mýrdalshrepps m.a. með áformaðri íbúabyggð við austurenda Víkurþorps. Þar með yrði þjóðvegur 1 áfram innan þéttbýlisins, segja þau. „Við bendum á að markmið sveitarfélagsins um veg út fyrir þorpið, hefur fallið um sjálft sig og á ekki lengur við, því hvar sem vegurinn kemur þá verður hann alltaf innan þéttbýlisins miðað við stefnu sveitarfélagsins í skipulagsmálum.“
Vegagerðin brást við athugasemd samtakanna með því að minna á að markmið framkvæmdarinnar með færslu hringvegarins væru skýr en að mikilvægur hluti umhverfismatsins sé m.a. að bera saman umhverfisáhrif valkosta, samræmi þeirra við markmið framkvæmdar og samræmi við skipulagsáætlanir.