Sverrir Ólafsson, meðdómari í Aurum-málinu fyrir héraðsdómi og bróðir Ólafs Ólafssonar, segir að Hæstiréttur Íslands virðist ekki hafa áhuga á því að reyna að komast að því sanna í ómerkingarmáli vegna Aurum-málsins. Niðurstaða Hæstaréttar í því var að ummæli Sverris í fjölmiðlum eftir að dómur féll sköpuðu vafa um óhlutdrægni hans og því var niðurstaða héraðsdóms, þar sem sakborningar voru sýknaðir, ómerkt. „Maður getur einungis leyft sér að vona að þetta tilfelli sé ekki dæmigert fyrir vinnubrögð og afstöðu Hæstaréttar til sannleikans,“ segir Sverrir grein sinni.
Einn sakborninganna í málinu, Jón Ásgeir Jóhannesson, hefur einnig skrifað greinar um niðurstöðu Hæstaréttar undanfarna daga þar sem hann gagnrýnir Hæstarétt. Umfjöllun um þær má lesa hér og hér.
Engar athugasemdir við hæfi
Sverrir skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fer yfir sína hlið á málið og rekur m.a. hvernig það kom til að hann varð meðdómari í Aurum-málinu. Þar sagði hann mestu hafa ráðið að hann þekkti engan áærðu og að hann hafði umfangsmikla þekkingu á málum sem því sem var til meðferðar. Sverrir segir að hann hafi strax nefnt bræðratengslin við Ólaf við dómsformanninn, Guðjón St. Marteinsson, sem hafi ekki séð meinbug á þeim. Dómsformaðurinn hafi síðan tilkynnt málsaðilum, verjendum og sérstökum saksóknara, um nöfn meðdómsmanna.
Í grein sinni segir Sverrir: „Eftir að dómur féll í Aurum-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. júní 2014 fór sérstakur saksóknari í fjölmiðla og sagðist ekkert hafa vitað af tengslum mínum við Ólaf Ólafsson. Hann hafði því rekið Aurum-málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, setið fyrir framan mig, sem settan sérfróðan meðdómsmann, í marga daga og ekki haft nokkra hugmynd um það hver ég var. Hann hafði sem sagt ekki hirt um að kynna sér hver settur meðdómsmaður var í jafn umfangsmiklu máli. Mér er sagt að þegar sérfróður meðdómsmaður er skipaður þá sé það fyrsta verk allra málsaðila að afla sér upplýsinga um meðdómsmanninn, með hugsanlegt vanhæfi í huga.
Samkvæmt mínum upplýsingum er sannleikurinn í þessu máli hins vegar allt annar. Þegar rekstur Aurum-málsins var að hefjast fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, spurði ég dómsformanninn hvort sérstökum saksóknara væri ekki ljóst um fjölskyldutengsl mín. Sagði hann svo vera og bætti við að þeir hefðu rætt bróðurtengsl okkar Ólafs svo og ráðgjafastörf mín fyrir slitastjórn Glitnis, áður en rekstur málsins hófst. Hefði niðurstaðan af samtalinu verið sú að þeir urðu sammála um að engin ástæða væri til að gera athugasemdir við hæfi mitt til að sitja í dómnum. Og sú varð reyndin.“
Hefði átt að orða athugasemdir sínar öðruvísi
Sverrir segir að staðhæfing Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, um að hann hefði ekki vitað um bræðratengsl sín, hefði því eðlilega haft mjög slæm áhrif á hann. „Eftir að ég frétti af útspili sérstaks saksóknara í fjölmiðlum þá hringir fréttamaður frá RÚV í mig. Við spjöllum saman og í því viðtali læt ég neikvæð ummæli falla um framkomu sérstaks saksóknara, í tengslum við aðför hans að Guðjóni og mér.
Búið er að margspila og rita þessi ummæli í fjölmiðlum landsins. Eftir á að hyggja þá hefði ég átt að orða athugasemdir mínar öðruvísi. En, ummælin voru viðbrögð við ómaklegri árás og lýsa fyrst og fremst skoðun minni á þessu sérstaka hátterni sérstaks saksóknara, sem hér um ræðir.“
Eftir á að hyggja þá hefði ég átt að orða athugasemdir mínar öðruvísi. En, ummælin voru viðbrögð við ómaklegri árás og lýsa fyrst og fremst skoðun minni á þessu sérstaka hátterni sérstaks saksóknara, sem hér um ræðir.
Farið var fram á að Sverrir og Guðjón St. Marteinsson yrðu yfirheyrðir í ómerkingarmálinu fyrir Hæstarétti. Sverrir segist hafa orðið mjög hissa þegar sú leið var ekki farið. „Hér er um svo mikilvægt mál að ræða, ásökun virts dómara á hendur sérstökum saksóknara um að hann hafi sagt ósatt. Afstaða bæði Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands í málinu er mér á allan hátt óskiljanleg. Ef það er óleyfilegt, eða jafnvel ólöglegt, að yfirheyra dómara í tengslum við það mál sem þeir hafa dæmt í, þá hefur það, í þessu tilfelli, leitt til þess að ómögulegt reyndist að komast að sannleika málsins. Á sama tíma liggur einn æðsti maður ákæruvaldsins undir ásökun eins virtasta dómara landsins um að hafa sagt ósatt og á þann hátt haft áhrif á framhald mikilvægs dómsmáls.“
Hæstiréttur ekki áhuga á að komast að hinu sanna
„Niðurstaðan, sem ég kemst að er að Hæstiréttur Íslands virðist ekki hafa áhuga á að reyna að komast að því sanna í málinu. Þetta er mjög alvarlegt.,“ segir Sverrir í grein sinni. „Maður getur einungis leyft sér að vona að þetta tilfelli sé ekki dæmigert fyrir vinnubrögð og afstöðu Hæstaréttar til sannleikans.“
Hann segir að ummæli sín í fjölmiðlum verði að metast í ljósi þeirra upplýsinga sem hann hafði um að sérstakur saksóknari væri að segja ósatt. „Er Hæstiréttur virkilega að segja að mínar upplýsingar um ósannsögli sérstaks saksóknara gefi ekki tilefni til að hafa neikvæð áhrif á það traust sem ég ber til hans? Ummæli sérstaks saksóknara eru með tilliti til orðavals ef til vill hógvær, en það er ekkert hógvært við það að segja ósatt um jafn mikilvæga hluti og hér er um að ræða. Í mínum vinnureglum er slíkt hátterni óviðunandi og má undir engum kringumstæðum líðast og alveg sérstaklega ekki í réttarkerfinu. Það er mitt mat að Hæstiréttur hefði átt að setja meiri vinnu í það að reyna að komast að hinu sanna í málinu.“