Mattias Karlsson, leiðtogi Svíþjóðarkemókrata á sænska þinginu, óskaði eftir því þegar leiðtogakappræður fóru fram í dag, að fá að leggja fram vantrauststillögu gegn Stefan Löfven forsætisráðherra. Aðeins tvær vikur eru síðan Löfven aflýsti fyrirhuguðum kosningum á miðju kjörtímabili eftir uppnám við afgreiðslu fjárlaga í desember.
Til að geta lagt fram vantrauststillögu gegn ráðherra í Svíþjóð þarf þingmaður að fá 35 stjórnarandstöðuþingmenn til að standa með sér. Ekki mega líða meira en 3 þingfundir frá því að beiðni um vantraust hefur verið lögð fram. Einfaldan meirihluta þingheims (175 jákvæð atkvæði) þarf til að staðfesta vantrauststillöguna.
„Svíþjóðardemókratarnir nota hræðsuaðferðir við meðferð fjárlaga og halda því áfram. Á sama tíma er flokkurinn að brenna margar brýr að baki sér,“ segir Henrik Oscarsson, stjórnmálafræðingur við Gautaborgarháskóla, við AFP-fréttastofuna.
Ólíklegt þykir að vantrauststillagan verði staðfest í þinginu þegar greidd verða um hana atkvæði. Svíþjóðademókratarnir hafa 49 þingmenn eftir að hafa tvöfaldað fylgi sitt í síðustu kosningum og þurfa því 126 atvæði til viðbótar frá öðrum öflum í sænska þinginu.
Löfven hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann tók við embætti forsætisráðherra af Fredrik Reinfeldt í október.
Náði naumlega að afstýra kosningum
Löfven hafði boðað til kosninga fyrr í desembermánuði í kjölfar þess að minnihlutastjórn undir hans forsæti mistókst að koma fyrsta fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið, en hún tók við völdum í kjölfar þingkosninga sem fóru fram í september síðastliðnum.
Skoðannakannanir bentu til þess að Svíþjóðardemókratar, flokkur þjóðernissinna sem vill herða mjög innflytjendalöggjöf landsins, myndi styrkja sig mjög ef kosið yrði aftur í mars. Flokkurinn vann stórsigur í síðustu kosningum þegar hann fékk 12,9 prósent atkvæða, sem er það mesta sem hann hefur nokkru sinni hlotið. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar eins og til dæmis Hægriflokkurinn (Moderaterna) hafa einnig mælst með aukið fylgi síðan í kosningunum síðasta sumar.
Löfven náði á síðustu stundu að gera samning við miðhægriflokka og afstýra falli minnihlutastjórnarinnar í lok desember.