Veiðiþjófaeftirlitsflokkurinn Svörtu eiturslöngurnar (e. Black Mambas) hefur hlotið viðurkenningu umhverfismálastofunnar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) fyrir baráttu sína gegn veiðiþjófnaði í Balule þjóðgarðinum í Suður-Afríku. Hópurinn, sem er að mestu skipaður konum, hefur handtekið sex veiðiþjófa, lokað fimm tjaldbúðum þeirra og fækkað tilvikum þar sem dýr eru veidd í snörur um 76 prósent.
Það kom því ekki á óvart þegar hópurinn, skipaður er 26 konum, hlaut helstu viðurkenningu UNEP sem á ensku kallast Champions of the Earth. Þjóðgarðurinn sem þær vakta er á tveggja milljón hektara svæði nyrst í Suður-Afríku. Hópurinn var stofnaður árið 2013 og hefur haft áhrif til góðs á dýralíf í þjóðgarðinum sem er heimili margra af sjaldgæfustu dýrategundum í heimi.
Svörtu eiturslöngurnar sinna eftirlitinu fótgangandi um garðinn í þrjár vikur í senn og ganga nærri 20 kílómetra á dag til að hafa hendur í hári veiðiþjófa sem áseilast nashyrninga, antilópur, blettatígra, ljón, fíla og fleiri dýr. Það orðspor fer af Eiturslöngunum að þær þekki þjóðgarðinn svo vel að hreyfing minnstu steinvölu komi þeim á spor veiðiþjófa.
Þjóðgarðurinn er gríðarlega stór og er heimili margra dýrategunda á barmi útrýmingar.
„Verkefni sem verða til með samfélagsátaki eru mikilvæg til þess að berjast gegn ólöglegri verslun með villidýraafurðir. Svörtu eiturslöngurnar hafa undirsrikað mikilvægi þessa og sýnt fram á gildi þekkingar íbúa í þessum aðstæðum,“ lætur Achim Steiner, framkvæmdastjóri UNEP, hafa eftir sér á vef Sameinuðu þjóðanna.
Verndun nashyrninga er sérstaklega mikilvæg í Suður-Afríku en þar voru 1.215 nashyrningar drepnir árið 2014. Það er 12000 prósenta aukning á tíu árum eða síðan 2004. Sameinuðu þjóðirnar lýsa þessu sem hryllilegum faraldri sem hefur orðið til þess að kyn nashyrninga er í útrýmingarhættu. „Með hverjum nashyrningi sem þær bjarga er sýnt fram á hversu mikilvægt framtak heimamanna er til að viðhalda sjálfbærni náttúrunnar.
„Ef þú sérð veiðiþjófana þá segir maður þeim að sleppa því að reyna; segir þeim að við séum hér og að þeir séu í hinni raunverulegu hættu,“ segir Leita Mkhabela, meðlimur í Svörtu eiturlöngunum. „Ég er ekki hrædd því að ég veit hvað ég er að gera og hvers vegna ég er að því.“