Tækifæri til að nýta orku í rafmyntaiðnaði hér á landi eru til staðar á meðan markaður fyrir rafmyntir heldur velli að mati Bjarna Benediktssonar, efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í svari Bjarna við fyrirspurn um rafmyntir sem Bryndís Haraldsdóttir, samflokksmaður Bjarna, lagði fram á Alþingi.
Í svari fjármálaráðherra segir að raforkunotkun vegna rafmynta sé orðin gífurlega mikil á heimsvísu. Þar af leiðandi fylgi mikill kostnaður slíkum myntum, sem fyrst og fremst sé fólgin í tölvubúnaði og í orku. Jákvætt sé að orkan sem notuð er af íslenskum gagnaverum sé loftslagsvæn, eins og það er orðað í svarinu.
Framtíð rafmynta sé þó óljós. „Að því sögðu eru ekki mörg jákvæð teikn á lofti varðandi áframhaldandi vöxt ómiðstýrðra rafmynta til lengri tíma þar sem ekki er a.m.k. enn útlit fyrir að slíkar rafmyntir taki við af hefðbundinni greiðslumiðlun. Engu að síður er markaður fyrir rafmyntir nú þegar nokkuð stór og á meðan að hann heldur velli verða til staðar tækifæri til að nýta ódýra og umhverfisvæna orku hér landi í rafmyntaiðnað,“ segir í svarinu.
Líklegt að hið opinbera geti nýtt bálkakeðjutækni
Einn liður fyrirspurnarinnar sneri að því hvort bálkakeðjutæknin geti nýst hinu opinbera á vegferð sinni til rafrænnar stjórnsýslu og þjónustu. Í svarinu segir að tæknin sé ekki komin nógu langt á veg til þess að hægt sé að taka hana í notkun hjá hinu opinbera. Hins vegar sé líklegt að tækifæri myndist til að nýta tæknina hjá hinu opinbera þegar tæknin verður orðin útbreiddari og traust almennings og skilningur á henni hafi aukist. „Stafrænt Ísland, fylgist vel með þróun nýrrar tækni á borð við bálkakeðjutæknina og mun nýta slíka tækni þegar færi gefast í framtíðinni.“
Bryndís spurði meðal annars út í áskoranir varðandi skattframkvæmd og skattaeftirlit þegar kemur að rafmyntum og sýndarfé. Í svarinu kemur fram að álitaefni séu til staðar varðandi skattlagningu tekna sem fólk kann að hafa af viðskiptum með rafmyntir. Þá geta einnig komið upp álitamál í tengslum við viðskipti með rafmyntir með tilliti til virðisaukaskattslaga.
Þá kemur einnig fram í svarinu að þó að sýndarfé sé mikið notað í lögmætum tilgangi sé það oft vel fallið til notkunar í ólöglegum viðskiptum. Þó svo að fá mál og ábendingar hafi borist embætti skattrannsóknarstjóra vegna viðskipta og notkunar sýndarfjár sé engu að síður ástæða til að kanna umfang þess. „Vegna eðlis sýndarfjár og ósýnileikans getur verið erfitt að finna það og rekja. Þörf er á að meta umfangið og finna leiðir til að hvetja aðila til að telja fram eignir og viðskipti með sýndarfé þar sem hvergi er hægt að afla þeirra upplýsinga með beinum hætti.“