„Þegar ég kem vestur þá þekkja mig flestir þegar ég kem út á götu en þegar ég labba Laugaveginn þekkir mig enginn. Mig langar rosalega mikið inn í þetta. Ég horfi á þetta sem krefjandi verkefni, miklar áskoranir en ég tel svo auðvelt að gera betur,“ segir Ómar Már Jónsson oddviti Miðflokksins í Reykjavík í viðtali í hlaðvarpsþættinum Með orðum oddvitanna í hlaðvarpi Kjarnans. Vestur, segir Ómar, því hann hefur töluverða reynslu úr sveitarstjórnarmálum á Vestfjörðum. Hann tók við starfi sveitarstjóra Súðavíkurhrepps árið 2002 og gegndi því í tólf ár, auk þess sem hann sat í sveitarstjórn frá árinu 2006.
Nú er hann kominn til þess að „banka á dyrnar“ í borginni eins og hann orðar það, undir merkjum Miðflokksins sem býður fram undir slagorðinu „Meiri borg“. Eitt af helstu áherslumálum flokksins fyrir komandi kosningar eru húsnæðismálin en Ómar segir neyðarástand ríkja í húsnæðismálum í borginni.
„Það er óeðlilegt að sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg sé í þeirri stöðu að það vanti fjögurþúsund eignir inn á markaðinn, fjögur þúsund íbúðir. Þessi neyðarstaða hefur orðið til þess að fasteignaverð hefur tvöfaldast á örfáum árum sem hefur gert ungu fólki nánast ómögulegt að komast í eigið húsnæði. Leiguverð er komið upp fyri öll eðlileg mörk og þetta ófremdarástand er af mannavöldum. Ég vil meina að þetta sé tengt kerfisvanda , alvarlegum kerfisvanda í borginni og skort á fyrirhyggju.“
Víða hægt að byggja
Að mati Ómars tapi allir á ástandinu nema borgin sjálf: „Það er einn aðili sem hagnast hvað mest á þessu og það er borgin sjálf en á kostnað íbúanna. Með hækkun á fasteignaverði verður hækkun á fasteignamati sem þýðir meiri tekjur í kassa borgarsjóðs.“
Hann segir að hægt sé að bæta ástandið með betri áætlunum og fyrirhyggju og að Miðflokkurinn muni beita sér fyrir því að flýta skipulagsmálum og byggja hraðar. Hvað þéttingu varðar segir Ómar Miðflokkinn ekki vera á móti þéttingu en að hún þurfi að vera einhverjum takmörkunum háð.
„Það er gríðarlega víða sem hægt er að byrja að byggja, það er í Örfirisey, á Kjalarnesi, Gufunesi, Keldum og það er allt í lagi að þétta byggðina eins og fókusinn hefur verið allt of mikill á en það má ekki gera það með þeim hætti að fasteignamarkaðurinn sé lagður í rúst á sama tíma.“
Alfarið á móti Borgarlínu
Spurður út í þær áskoranir sem geta skapast í kjölfar dreifingar byggðar með tilliti til samgangna segir Ómar Miðflokkinn vera alfarið á móti Borgarlínu. „Ég var nú sveitarstjóri í litlu sveitarfélagi, Súðavíkurhreppi og nú er ég að banka á dyrnar hjá borginni og þegar við horfum á muninn á milli að vera í litlu sveitarfélagi og koma inn í borgina þá vissulega er Súðavíkurhreppur lítill í samanburði við Reykjavík en Reykjavík er líka agnarsmá í samanburði við aðrar borgir í Evrópu og borgarlínan er svona apparat sem að sómir sér rosalega vel í stærri borgum, þriggja milljóna manna borgum eða fimm, sex milljóna manna borgum.“
Ómar segir að frekar þurfi að horfa til þess að nýta stofnæðar borgarinnar betur. Þær séu aftur á móti illa nýttar vegna þess að stærsti hluti umferðarinnar rennur í gegnum stofnæðarnar á umferðatepputímum og á rauðu ljósi. „Með því að einfalda stofnæðakerfið með mislægum gatnamótum, með því að taka gangandi fólk af þessum stofnæðum annaðhvort með undirgöngum eða yfir stofnæðarnar og mynda þannig óhindrað flæði, þá er mjög einfaldlega hægt að leysa þessar stíflur sem við búum við í dag,“ segir Ómar og bætir því við að slíkar lausnir muni kosta brot af af því sem borgarlínan muni koma til með að kosta.
Hann segir að eina leiðin til þess að fjölga notendum almenningssamgangna sé að þvinga einkabílinn af götunum. „Það er þvingun sem við höfnum algjörlega vegna þess að við viljum stuðla að frelsi einstaklinganna til þess að velja sinn eigin samgöngumáta en ekki láta borgina velja fyrir okkur.“
Að mati Ómars geta deilibílaleigur á borð Zipcar og skutlþjónustur á borð við Uber einnig minnkað álagið í umferðinni. „Ég tel að tæknin sem við sjáum fram undan muni að mörgu leyti sjálf leysa úr þessum áhyggjum sem meirihlutinn og fleiri eru með í borginni.“
Vill fjölbreytileika í skólakerfinu
Eitt af þeim málum sem frambjóðendur Miðflokksins hafa sterkar skoðanir á eru skólamál, enda oftast dýrasti og stærsti málaflokkur hvers sveitarfélags líkt og Ómar bendir á. Hann segir að mikilvægt sé að huga að þörfum ólíkra hópa í skólakerfinu en einnig að skólarnir séu ekki allir steyptir í sama mót.
„Við eigum að búa til meiri fjölbreytileika í skólakerfinu, í grunnskólunum og við eigum að gera það með því að valdefla skólastjóra og kennara. Það er enginn í betri stöðu heldur en stjórnendur skólanna til þess að útfæra hvaða aðferðafræði virkar fyrir hvern hóp. Skólarnir eru mismunandi, nemendurnir eru mismunandi, þarfirnar eru mismunandi.“
Spurður að því hvernig Miðflokkurinn sjái fyrir sér að spara á móti auknum kostnaði, til dæmis í skólamálum, segir Ómar að taka þurfi til í starfsmannamálum borgarinnar. „Reykjavík er ekki stór borg, hún er lítil borg. Hér búa einungis 140 þúsund manns en hjarta okkur Íslendinga er stórt og við hugsum borgina stóra. Það er frábært, hún er ein heitasta borgin í Evrópu en hún er ekki stór. Að vera að blása út kerfið, að starfsmannafjöldi borgarinnar sé kominn í 12 þúsund manns segir mér að eitthvað sé að.“
Mætti sameina stjórnsýslu höfuðborgarsvæðisins?
Hann bendir á að eftir bankahrun hafi fyrirtæki í B-hluta borgarinnar náð að sinna þjónustuhlutverki sínu þrátti fyrir að hafa þurft að segja upp allt að helmingi starfsfólks. Vissulega geti verið gott að hafa margt starfsfólk til að gera „alls konar“ en það megi ekki vera á kostnað íbúanna.
„Þar mundi ég vilja horfa á það að setja algjört ráðningarstopp í borginni en verja alla grunnþjónustu, bæta í snemmtæka íhlutun og eftirfylgni með þeim sem þess þurfa í skólakerfinu. Einbeitum okkur að þeim lögbundnu verkefnum sem borgin á að vera að sinna. Við erum ekki að því í dag, borgin er að þjóna sjálfri sér með allt of mikið af gæluverkefnum,“ segir Ómar og minnist samþættingar á þjónustu sem ráðist var í fyrir vestan á hans tíð.
„Ég held að það væri hægt að ná fram gríðarlegum sparnaði með því að skoða á heiðarlegan, sanngjarnan og hlutlausan hátt með hag íbúanna í fyrirrúmi. Hvað þjónar íbúunum best, er það að vera með eina sameiginlega stjórnsýslu fyrir allt höfuðborgarsvæðið?“ spyr Ómar og segir þetta vera spurningu sem áhuagvert gæti verið að skoða.
„Vegna þess að þetta snýst um íbúana, þetta snýst ekki um sveitarfélögin. Þetta snýst um að þjóna íbúunum og að gera það vel.“
Hægt er að hlusta á viðtalið við Ómar Má í heild sinni í spilaranum hér að neðan: