538 manns hafa sagt upp áskrift að DV á undanförnum tveimur vikum, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þetta eru rúmlega tíu prósent allra áskrifenda blaðsins, en áskrifendur blaðsins eru á milli fimm og sex þúsund talsins. Tapaðar tekjur vegna þessarra áskrifta eru tæpar tvær milljónir króna á mánuði miðað við uppgefið verð á áskrift á vef DV, www.dv.is. Engir nýir áskrifendur hafa komið á móti.
Mikill styr hefur staðið um eignarhaldið á DV undanfarnar tvær vikur. Þorsteinn Guðnason, sem heldur því fram að hann hafi bæði keypt hlutafé í DV og lánað háar fjárhæðir til rekstur útgáfufélags DV á undanförnum misserum, hefur viljað fá ítök í stjórn í samræmi við eignarhald sitt. Reynir Traustason, ristjóri og einn stærsti eigandi DV, og hópur tengdur honum hefurhaft tögl og haldir í stjórninni til þess.
Reynir hefur sagt að á bakvið Þorsteinn standi Gísli Guðmundsson, fyrrum eigandi B&L. Hann hafi í raun fjármagnað bæði hlutabréfakaup hans og lán. Þá hefur komið fram að umræddur Gísli hafi einnig lánað Reyni fé til að auka við hlut sinn í DV. Reynir hefur einnig gengist við því að hafa fengið 15 milljónir króna lánaðar frá útgerðarmanninum Guðmundi Kristjánssyni, kenndum við Brim, vegna sömu ástæðu.
Talið er borðliggjandi að nái hópur Þorsteins Guðnasonar meirihluta í DV muni feðgarnir Reynir Traustason, ritstjóri, og Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri, missa störf sín. Því til stuðnings er hægt að vísa í að Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyri-Vikublaðs, hefur upplýst um það opinberlega að honum hafi verið boðinn ritstjórastóllinn hjá DV.
Björn Leifsson, kenndur við World Class, hefur einnig blandað sér í málið. Hann keypti rúmlega fjögurra prósenta hlut í DV á síðustu vikum og lýsti því opinberlega yfir að hann ætlaði sér að losna við Reyni Traustason úr ritstjórastóli. Tækist það væru bréf hans á ný til sölu.
Hluthafafundur í DV fór fram síðastliðinn föstudag og var búist við því að framtíð blaðsins myndi liggja fyrir eftir hann. Það varð ekki og fundinum var frestað um viku vegna ágreinings um ársreikning útgáfufélagsins. Hinn frestaði fundur fer fram næstkomandi föstudag.