Tæplega helmingur íslenskra blaða- og fréttamanna segir að sér hafi verið ógnað eða hótað í starfi. Þetta er meðal niðurstaðna í nýlegri könnun rannsóknarhóps í verkefninu Worlds of Journalism Study (WJS). Um 40 prósent svarenda sögðu að þeim hefði stundum eða sjaldan verið ógnað og sjö prósent svarenda sögðu að þeim hefði oft eða mjög oft verið ógnað. Því hefur rétt rúmlega helmingur, eða 53 prósent, blaðamanna aldrei verið ógnað eða hótað í starfi.
Fjallað er um rannsóknarverkefni WJS í nýjasta hefti Blaðamannsins sem nú er í prentun. Þar segir að í rannsóknarverkefninu sé sjónum beint að öryggismálum og stefnt sé að því að bera saman stöðuna í hinum ýmsu löndum heims. Rannsóknarhópur lagði ítarlega könnun fyrir íslenska blaða- og fréttamenn þar sem spurt var um hvers kyns ógnir sem steðja að íslenskum blaðamönnum. Nú hafa frumniðurstöður rannsóknirnar verið birtar sem byggja á íslenskum hluta hennar.
Einnig er nokkuð um það að siðferði blaðamanna sé dregið í efa en innan við 40 prósent svarenda segja það aldrei hafa gerst á undanförnum fimm árum. Tæpur helmingur segir að siðferði viðkomandi hafi verið dregið í efa sjaldan eða stundum og ellefu prósent svarenda segja það gerast oft eða mjög oft.
Ástandið sambærilegt í nágrannalöndunum
„Aðrar tegundir ógnar eða árása virðast ekki eins algengar, en þó kemur það satt að segja á óvart hversu algengt ýmis konar ofbeldi er, s.s. að dreift sé um fólk persónuupplýsingum eða að fólk sé beitt þvingunum í orðum eða gerðum. Rétt er að hafa í huga að þær prósentur sem hér er miðað við eru reiknaðar af heildarsvörum 248 svarenda, þannig að það að 13% hafi verið lögsótt í starfi síðustu fimm ár þýðir í raun 32 einstaklingar. Eins þýðir það að 12% hafi verið beitt kynferðislegri áreitni/ofbeldi að um er að ræða um 30 einstaklinga, og þar af er mikill meirihluti konur,“ segir um niðurstöðurnar í greininni.
Frumniðurstöðurnar eru sagðar benda til þess að ástandið í öryggismálum blaðamanna sé í eðli sínu nokkuð sambærilegt við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Því sé full ástæða til að horfa til þess hvernig fjölmiðlafólk í löndunum í kringum okkur bregst við slíkum ógnum og draga af þeim lærdóma.