Á dögunum greindu norskir fjölmiðlar frá því að í Åsnes-Finnsskógi norðaustur af Ósló, nærri landamærunum að Svíþjóð, væri að finna tannbursta í þúsunda vís í haugum. Burstar þessir hafa verið í skóginum frá því að Jordan tannburstaframleiðandinn var með verksmiðju í smábænum Flisa. Jordan hafði gert samkomulag við landeigandann um að nota skóginn til förgunar bursta sem einhverra hluta vegna þóttu ekki af nægilegum gæðum til að enda í hillum verslana. Þetta var á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
En nú þegar félagið Orkla hefur keypt Jordan hefur allt frá uppgötvun ruslahaugsins í haust verið deilt um hver eigi að bera kostnaðinn að hreinsuninni.
Á sama tíma er Jordan hins vegar að hvetja fólk til að skila sér notuðum tannburstum vegna tilrauna sem fyrirtækið vill gera á endurnýtingu þeirra. „Þeir hefðu getað fengið 100 kíló af tannburstum á fimm mínútum ef þeir hefðu farið í Åsnes-skóg,“ hefur norska ríkistútvarpið eftir Robert Tollefsen sem fer fyrir samtökunum Plastpíratarnir.
Jordan hefur beðið notendur tannbursta sinna í Noregi og Portúgal um að skila notuðum burstum til sín í fyrrnefndi tilraun til endurvinnslu. Allt í nafni loftslagsins að sjálfsögðu. „Það getur vel verið að tannburstarnir, eða einhverjir þeirra að minnsta kosti, sem er að finna í landfyllingunni [í skóginum] fari inn í þetta verkefni,“ hefur NRK eftir upplýsingafulltrúa Jordan. „Það væri vissulega mjög áhugavert og eitt af því sem við erum að skoða.“
Upplýsingafulltrúinn bendir hins vegar á að viðræður standi yfir milli þriggja aðila, sveitarfélagsins, Orkla og landeigandans, um hvernig staðið verður af hreinsuninni í skóginum. Finna þurfi „bestu lausnina“ í samvinnu þessara aðila. Hvort að tannburstarnir í skóginum henti til endurvinnslu er líka annað mál. Um það veit Jordan ekki á þessari stundu þar sem starfsmenn fyrirtækisins hafa ekki sótt bursta til skoðunar.
Tollefesen plastpírati segir að möguleg endurvinnsla tannbursta sé að sjálfsögðu hið besta mál. „Þeir fá prik fyrir það,“ segir hann. „Það verða allir að hugsa í lausnum.“