Bláa lónið tapaði 20,7 milljónum evra, 3,2 milljörðum króna, á síðasta ári og tekjur þess drógust saman um 74 prósent frá árinu 2019. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var í vikunni.
Þar kemur fram að heildar eigið fé Bláa lónsins hafi verið 57,2 milljónir evra, 8,9 milljarðar króna, í lok síðasta árs og að óráðstafað eigið fé félagsins hafi verið 35,3 milljónir evra, um 5,5 milljarðar króna. Eigið féð lækkaði um 28 prósent í fyrra.
Tap Bláa lónsins á árinu 2020 er í heild lægra en síðasta arðgreiðsla sem greidd var út úr félaginu. Á árinu 2019 fengu hluthafar alls 30 milljónir evra, þá um 4,3 milljarða króna, í arðgreiðslu vegna frammistöðu ársins á undan. Árið áður, 2018, nam arðgreiðslan til hluthafa 16 milljónum evra, eða um 2,3 milljörðum króna. Því var tap félagsins í fyrra um 45 prósent af arðgreiðslum áranna 2018 og 2019.
Stærsti eigandi félagsins er Hvatning slhf. með eignarhlut upp á 39,6 prósent. Eigandi þess er Kólfur ehf., eignarhaldsfélag að stærstu leyti í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, og Eðvard Júlíussonar. Kólfur keypti tæplega helming í Hvatningu af Horni II, framtakssjóði í stýringu Landsbréfa, árið 2018.
Í ársskýrslum lífeyrissjóða sem eru á meðal hluthafa í bæði Hvatningu og Blávarma er hægt að sjá að þeir hafa lækkað verðmat sitt á félaginu á síðasta ári og meta það nú á bilinu 39-41 milljarð króna.
591 milljón í uppsagnarstyrki
COVID-19 hafði gríðarleg áhrif á rekstur Bláa Lónsins á árinu 2020. Í ársreikningi segir m.a. að gestum hafi fækkað um 76 prósent milli áranna 2019 og 2020 og að tekjur félagsins hafi dregist saman um 87 prósent milli ára á tímabilinu mars-desember.
Bláa Lóninu var gert að loka starfsstöðvum sínum í Svartsengi þann 23. mars 2020 í kjölfar reglna um ferðatakmarkanir milli landa og samkomubanns sem sett var á. Starfsstöðvarnar voru opnaðar aftur í fyrrasumar en svo lokað aftur þegar kórónuveiran fór aftur á kreik. Alls voru starfstöðvar Bláa lónsins lokaðar í sex mánuði á árinu 2020.
Vegna kórónuveirufaraldursins sagði Bláa lónið upp 164 starfsmönnum í lok mars og í lok maí var 402 starfsmönnum til viðbótar sagt upp. Í lok ágúst voru 237 starfsmenn endurráðnir tímabundið en stærstur hluti þess hóps fékk ekki endurráðningu í lok október. Alls fækkaði meðalfjölda starfsmanna á árinu 2020 miðað við heilsársstörf úr 726 í 431.
Bláa lónið fékk alls 591,2 milljónir króna í stuðningsgreiðslur úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði vegna uppsagna á starfsfólki í fyrra. það úrræði stjórnvalda heimilaði fyrirtækjum sem orðið höfðu fyrir miklu tekjufalli að sækja styrk fyrir allt að 85 prósent af launakostnaði á uppsagnarfresti í ríkissjóð.
Auk þess fengu 454 starfsmenn fyrirtækisins laun í gegnum hlutabótaleiðina í þrjá mánuði á síðasta ári. Eina fyrirtækjasamsteypan sem setti fleiri starfsmenn á leiðina var Icelandair Group.
Laun stjórnar og forstjóra Bláa lónsins á síðasta ári voru 811 þúsund evrur, um 126 milljónir króna. Launakostnaður þeirra í evrum dróst saman um 28 prósent milli áranna 2019 og 2020. Stjórnarformaður félagsins er Helgi Magnússon, aðaleigandi fjölmiðlafyrirtækisins Torgs.
Auk Helga sitja þau Ágústa Johnson, Ragnar Guðmundsson, Sigríður Margrét Oddsdóttir og Steinar Helgason í stjórn Bláa Lónsins. Varamenn í stjórn eru þau Anna G. Sverrisdóttir og Úlfar Steindórsson, sem er einnig stjórnarformaður Icelandair Group.