Frá árinu 2010 hafa tekjur ríkisins af innheimtu kolefnisgjaldi tæplega 45,6 milljörðum króna. Tekjur ríkisins af gjaldinu hafa vaxið jafnt og þétt og hafa aldrei verið jafn miklar og í fyrra þegar þær námu 5.770 milljónum króna. Sú tala er byggð á áætlun fjárlaga 2022 sem gefin voru út í nóvember en ríkisreikningur ársins er ekki kominn út. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata um tekjur af losun gróðurhúsalofttegunda.
Árið 2010 hófst innheimta kolefnisgjalds og námu tekjur ríkisins það ár vegna kolefnisgjalds 1.914 milljónum. Krónutöluhækkunin á tímabilinu er því næstum þreföld. Á vef stjórnarráðsins segir að kolefnisgjald sé lagt á gas- og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas og annað loftkennt vetniskolefni. Þrátt fyrir að tekjur tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi hafi aukist umtalsvert frá því það að innheimta hófst er ekki þar með sagt að notkun eldsneytis og gass hafi aukist á tímabilinu enda hefur gjaldið hækkað.
Sala á gjaldskyldu eldsneyti rokkandi
Kolefnisgjaldið er hluti af Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og er ætlað að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Á vef stjórnarráðsins er birtur árangursmælikvarði fyrir aðgerðina þar sem borin er sala á jarðefnaeldsneyti sem lagt er kolefnisgjald. Þar sést að árið 2020 voru 664,6 þúsundir lítra af jarðefnaeldsneyti seldir árið 2019 en 557,9 þúsundir lítra árið 2020. Salan dróst því saman um 18 prósent á milli þessara ára. Orkuskipti í samgöngum hafa þau áhrif að verulega dregur úr sölu á jarðefnaeldsneyti en hafa ber í huga í samanburði á árunum 2019 og 2020 að kórónuveirufaraldurinn dró verulega úr öllum umsvifum á árinu 2020.
Í upphafi árs 2018 var kolefnisgjald hækkað um 50 prósent og tekjur ríkisins jukust úr 3.806 milljónum árið 2017 í 5.317 milljónir árið 2018. Þegar þær tölur eru skoðaðar nánar sést að tekjur ríkisins af gjaldinu jukust um 53.5 prósent sem er umfram gjaldhækkunina sem þýðir að sala á gjaldskyldu eldsneyti jókst á milli þessara ára.
Gjaldið var aftur hækkað um 10 prósent í upphafi árs 2019. Á milli áranna 2018 og 2019 jókst innheimta kolefnisgjalds um 6,8 prósent, fór úr 5.317 milljónum í 5.353 milljónir. Tekjuaukningin var því hlutfallslega minni en hækkun gjaldsins sem þýðir að salan á gjaldskyldu eldsneyti minnkaði á milli þessara ára. Gjaldið var enn aftur hækkað í upphafi árs 2020 um 10 prósent. Tekjur ríkisins lækkuðu aftur á móti milli ára og námu 5.332 milljónum árið 2020.
Uppboð á losunarheimildum skilað á ellefta milljarð
Ríkið hefur einnig tekjur af uppboði losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda og hefur haft frá árinu 2019. Samtals nema tekjur ríkisins af uppboði losunarheimilda tæplega 10,5 milljörðum króna á tímabilinu 2019 til 2021. Samkvæmt bráðabirgðaupplýsingum námu tekjur ríkisins í fyrra 847 milljónum króna og lækkuðu þær umtalsvert frá fyrri árum, þær voru 6.067 milljónir árið 2020 og 3.576 milljónir árið 2019.
Ríkið á rétt á hlutdeild í tekjum af uppboði losunarheimilda samkvæmt EES-samningnum. Evrópusambandið hefur sett það sem viðmið að að minnsta kosti 50 prósent af tekjum sem fást frá uppboði á losunarheimildum renna til loftslagsaðgerða. EFTA-ríkin eru aftur á móti undanskilin þeirri kvöð að þurfa að fylgja því viðmiði. „Því felur þátttaka Íslands í sölu losunarheimilda ekki í sér skuldbindingu til þess að ráðstafa ákveðnu hlutfalli af tekjum af sölu losunarheimilda til loftslagsmála,“ segir í svari fjármála- og efnahagsráðherra. Tekjurnar af uppboði losunarheimilda renna því beint í ríkissjóð og eru ekki eyrnamerktar loftslagsaðgerðum. Það sama gildir um tekjur af innheimtu kolefnisgjaldi.
Á fyrsta ársfjórðungi námu tekjur ríkisins frá uppboði á losunarheimildum 920 milljónum króna og tekjur frá kolefnisgjaldi námu 2.147 milljónum.