Um síðustu áramót höfðu landsmenn alls tekið út um 37 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum síðan slíkar úttektir voru kynntar til leiks sem hluti af fyrsta aðgerðarpakka stjórnvalda til að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Úttektirnar áttu að hjálpa fólki til að takast á við skammtímafjárhagsvanda.
Hægt var að sækja um nýtinguna út síðasta ár. Til viðbótar við það að heimila fólki aðgang að eigin sparifé felst í aðgerðinni tekjuöflun fyrir ríkissjóð, enda þurfa allir sem nýta sér úrræðið að greiða skatt af sparnaðinum þegar hann var greiddur út. Þannig er ríkissjóður að taka út tekjur nú sem annars hefðu verið greiddar síðar.
Þegar aðgerðin var kynnt til leiks kom fram að ríkisstjórnin reiknaði með að teknir yrðu út tíu milljarðar króna af séreignarsparnaðinum, en upphaflega hugmyndin í kringum hann var sú að slíkur sparnaður myndi auka ráðstöfunarfé fólks þegar það fer á eftirlaun. Það hefði skilað ríkissjóði um 3,5 milljörðum króna í nýjar tekjur.
Lengi hefur legið fyrir að eftirspurnin eftir því að nýta úttekt á séreignarsparnaði var langt umfram væntingar stjórnvalda. Í mars 2021 var áætluð heildarupphæð 28,6 milljarðar króna og í september var hún komin í 32,7 milljarða króna. Í nýuppfærðum tölum á vef stjórnarráðsins, sem sýnir stöðu mála í byrjun þessa árs, er upphæðin þegar komin í 37 milljarða króna og mun samkvæmt áætlun enda í að minnsta kosti 38 milljörðum króna. Því munu úttektir vera næstum fjórum sinnum það sem upphaflega var áætlað og því má gera ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs vegna skattgreiðslna af nýtingu séreignarsparnaðar sem hluta af aðgerðapakka til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldurs verði um 13,4 milljarðar króna.
Það er tíu milljörðum krónum meira en upphaflega var áætlað.
Ekki ljóst hverjir borga
Ekki hefur verið birt neitt niðurbrot á þeim hópi sem hefur nýtt sér þetta úrræði en ætla má að þar sé, að minnsta kosti að hluta, um að ræða fólk sem hefur átt í greiðsluerfiðleikum vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19. Þeir sem fóru úr vel launuðum störfum á atvinnuleysisbætur eru líklegri til að tilheyra þessum hópi en aðrir, þar sem tekjuhærri hafa almennt verið líklegri til að spara séreign en tekjulægri.
Þar er um að ræða þá hópa hérlendis sem verða fyrir mestum neikvæðum efnahagslegum áhrifum af yfirstandandi heimsfaraldri.
Ekki greiddur skattur af annars konar nýtingu
Á meðan að þeir sem hafa orðið fyrir fjárhagslegum búsifjum vegna kórónuveirufaraldursins þurfa að greiða skatt af nýtingu heimildar til að taka út séreignarsparnað á þurfa þeir sem nýta sama sparnað til að greiða niður húsnæðislán ekki að greiða neinn skatt. Tímabundin heimild til að gera slíkt hefur verið í gildi í lögum frá sumrinu 2014 og síðan verið framlengd þrívegis. Hún er nú í gildi til loka júnímánaðar 2023.
Kjarninn greindi frá því um miðjan mars í fyrra að frá 2014 og fram til loka janúar 2021 hefðu alls 62.952 einstaklingar, um 17 prósent allra landsmanna og um 30 prósent allra sem eru á vinnumarkaði, nýtt sér hið skattfrjálsa úrræði. Þar er um að ræða bæði þá sem hafa nýtt sér almenna úrræðið og úrræðið „Fyrsta fasteign“, sem kynnt var til sögunnar sumarið 2016.
Samkvæmt tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið tók saman fyrir Kjarnann nam umfang nýtingar Íslendinga á úrræðunum tveimur á tímabilinu alls 92 milljörðum króna. Í þeim tölum kom einnig fram að áætluð lækkun tekjuskatts og útsvars frá því að úrræðin buðust fyrst og fram til síðustu áramóta sé 21,1 milljarður króna.
Því hafði sá hópur fengið 21,1 milljarða króna í meðgjöf úr ríkissjóði sem öðrum hefur ekki boðist á umræddu tímabili. Um er að ræða tekjutap sem ríki og sveitarfélög þurfa ekki að takast á við nú, þar sem skattur af séreignarsparnaði er vanalega borgaður þegar fólk fer á eftirlaun.