Tekjur Reykjavíkurborgar vegna innheimtra fasteignaskatta námu 22,4 milljörðum króna í fyrra og voru í samræmi við gerða fjárhagsáætlun. Þær hækkuðu alls 368 milljónir króna milli ára og hafa samanlagt verið 44,4 milljarðar króna tveimur árum, 2020 og 2021.
Þetta kemur fram í skýrslu fjármála- og áhættustýringasviðs Reykjavíkurborgar sem fylgdi með ársreikningi hennar.
Það þarf að leita langt aftur til að finna jafn litla hækkun á innheimtum fasteignasköttum og á síðustu tveimur árum, en tekjustofninn hækkaði um 2,9 milljarða króna milli 2018 og 2019 og um þrjá milljarða króna milli 2017 og 2018.
Það var 2,9 milljörðum krónum meira en borgin innheimti í slíka skatta árið áður og 5,9 milljörðum krónum meira en árið 2017, þegar tekjur hennar vegna þeirra námu námu 15,1 milljarði króna.
Miklar hækkanir á fasteignaverði skýra auknar tekjur
Sveitarfélög landsins eru með tvo megintekjustofna. Annars vegar rukka þau útsvar, sem er beinn skattur á tekjur sem rennur til þess sveitarfélags sem viðkomandi býr í. Hins vegar rukka þau fasteignaskatt.
Tekjur Reykjavíkurborgar vegna fasteignaskatta næstum tvöfölduðust frá árinu 2013 og fram til loka árs 2019, en á tímabilinu fóru þær úr 11,6 milljörðum króna í 21,1 milljarð króna.
Ástæðan er sú að fasteignaverð í höfuðborginni hækkaði mikið á umræddu tímabili. Á íbúðarhúsnæði hækkaði það til að mynda um 81 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Frá mars í fyrra hefur íbúðaverð áfram hækkað stöðugt á svæðinu, eða alls um 22,2 prósent.
Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði var lækkaður um tíu prósent á árinu 2017 úr 0,20 í 0,18 prósent. Þannig er hann enn. Auk þess voru afslættir aldraðra og öryrkja af slíkum gjöldum auknir.
Á meðal þeirra aðgerða til að bregðast við þeirri stöðu sem upp kom vegna efnahagslegra áhrifa útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, og borgarráð samþykkti í lok mars 2020, var frestur á greiðslu allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta á árinu 2020. Það úrræði hafði áhrif á tekjur vegna fasteignaskatta á því ári.
Borgarráð ákvað á sama tíma ákveðið að flýta áformum sínum um að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65 í 1,60 prósent, en sú breyting tók þó ekki gildi fyrr en í byrjun árs í fyrra, og hafði því neikvæð áhrif á tekjur vegna þeirra á árinu 2021.