Utanríkisráðuneytið telur hættu á að opinber umfjöllun um hversu mörg íslensk vegabréf hafi verið útgefin til erlendra einstaklinga á grundvelli nýlegrar reglugerðar gæti vakið athygli erlendra stjórnvalda, sér í lagi stjórnvalda í heimalandi þess erlenda einstaklings sem fær útgefið íslenskt vegabréf af sérstökum ástæðum. „Ekki er hægt að útiloka neikvæð viðbrögð viðkomandi erlendra stjórnvalda, á alþjóðavettvangi, gagnvart íslenskum hagsmunum [...] ef þau frétta af vegabréfaútgáfu til ríkisborgara sem e.t.v. hafa flúið landið vegna ógnar sem þau hafa orðið fyrir.“
Þetta kemur fram í umsögn ráðuneytisins sem send hefur verið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna kæru Kjarnans á synjun ráðuneytisins um að láta honum í té upplýsingar um hversu mörg vegabréf hafi verið útgefin á grundvelli reglugerðarinnar. Þar segir að afhending upplýsinganna sem um ræði gæti haft skaðleg áhrif á tengsl Íslands við önnur ríki sem myndi stofna hagsmunum íslenska ríkisins í hættu. „Þá er ekki hægt að útiloka að umfjöllun um útgáfu íslenskra vegabréfa af sérstökum ástæðum geti haft neikvæð áhrif á tiltrú og trúverðugleika íslenskra vegabréfa.“
Kjarninn hefur sent úrskurðarnefndinni athugasemdir við umsögn utanríkisráðuneytisins þar sem öllum forsendum hennar um synjun á umbeðinni tölfræði er hafnað.
Má láta útlending hafa neyðarvegabréf
Þann 26. apríl undirritaði ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu reglugerð fyrir hönd dómsmálaráðherra. Reglugerðarbreytingin hafði það í för með sér að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra má nú óska þess að Útlendingastofnun gefi út vegabréf til útlendings „ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi“.
Kjarninn óskaði í síðasta mánuði eftir upplýsingum um hversu mörg vegabréf hefðu verið gefin út á þeim tæpa mánuði sem liðinn var síðan að reglugerðin tók gildi og hvenær þau voru útgefin.
Ráðuneytið neitaði að svara þeirri fyrirspurn með vísum í 9. og 10. grein upplýsingalaga. Kjarninn telur að hvorug greinin eigi við um þá upplýsingabeiðni sem send var, enda snýst hún um ópersónugreinanlega tölfræði.
Fordæmi er fyrir því að utanríkisráðuneytið veiti persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinga sem hafa fengið sérstök vegabréf. Það gerðist haustið 2005 þegar Mörður Árnason, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Geir H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra, um þá einstaklinga sem höfðu annars vegar diplómatísk vegabréf og hins vegar svokölluð þjónustuvegabréf. Geir birti lista með nöfnum allra þeirra einstaklinga í svari við skriflegri fyrirspurn Marðar á Alþingi.
Sett í samhengi við Pussy Riot
Rúmum tveimur vikum eftir að reglugerðarbreytingin var gerð, þann 11. maí 2022, birtist umfjöllun í New York Times um að íslenski listamaðurinn Ragnar Kjartansson hefði aðstoðað hina rússnesku Mariu Alyokhina, aðgerðarsinna og liðskonu rússnesku pönkrokksveitarinnar Pussy Riot, á flótta sínum frá Rússlandi.
Í umfjölluninni kom fram að Ragnar hefði fengið ónefnt Evrópuland til að gefa út ferðaskilríki sem veitti Alyokhina sömu stöðu og íbúar Evrópusambandsins. Ferðaskilríkjunum var smyglað inn til Hvíta-Rússlands svo hún gæti notað þau til að komast þaðan og yfir til Litháens.
Mbl.is og fleiri fjölmiðlar hefur sett reglugerðarbreytinguna frá því í apríl í samhengi við þetta mál.
Hvorki Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra né utanríkisráðuneytið hafa viljað tjá sig um hvort Ísland sé ríkið sem hjálpaði Alyokhinu með því að láta hana hafa ferðaskilríki sem veittu henni sömu stöðu og aðrir íbúar Evrópska efnahagssvæðisins.