Stjórn Byggðastofnunar segist telja það „álitaefni“ hvort framlögð frumvarpsdrög dómsmála um sameiningu sýslumannsembætta, sem þessa dagana eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, samræmist markmiðum nýsamþykktrar þingsályktunartillögu um byggðaáætlunar 2022-2036.
Þetta má lesa í umsögn stjórnar Byggðastofnunar við frumvarpsdrögin. Alls gerir stjórnin athugasemdir í sex liðum við drögin, sem hlotið hafa neikvæð viðbrögð á meðal sveitarstjórna víða um land, en stefnt er að því að
Í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun, sem samþykkt var á Alþingi 15. júní, er lögð áhersla á að opinber þjónusta í héraði verði efld, atvinnutækifærum fjölgað og ríkisrekstur bættur. Hvað sýslumannsembætti varðar segir að efla eigi starfsemi sýslumannsembætta um allt land og opinbera þjónustu í héraði með betri nýtingu innviða, þ.m.t. stafrænnar tækni, húsnæðis og mannauðs.
Stjórn Byggðastofnunar telur álitamál sem áður segir að frumvarp dómsmálaráðherra samræmist því sem þarna er stefnt að.
Mikilvægt að verðmætar stjórnunarstöður dreifist um landið
Fram kemur í frumvarpsdrögunum að stefnt sé að því að embætti sýslumanns verði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. Þrátt fyrir að stjórn Byggðastofnunar telji það jákvæða stefnu þykir henni „ástæða til að benda á mikilvægi þess að halda forræði og yfirstjórn verkefna opinberrar stjórnsýslu í byggðum landsins“.
„Stjórn telur mikilvægt að halda verðmætum og eftirsóttum stjórnunarstörfum í stjórnsýslu ríkisins dreifðum um byggðir landsins og telur að hægt sé að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í frumvarpinu um að bæta þjónustuna og gera hana enn skilvirkari innan núverandi stjórnsýslufyrirkomulags, ekki síður en fyrirhugað er með miðstýrðari einingu,“ segir í umsögninni frá Byggðastofnun.
Stjórn Byggðastofnunar lýsir yfir ánægju með þau „skýru áform“ sem birtast frumvarpinu um að fjölga opinberum verkefnum í landsbyggðunum, en segir hins vegar „ekki skilgreint hvaða verkefni er um að ræða eða að þeim hafi verið fundinn staður“, auk þess sem ekki sé sýnt fram á að áformum um slíkan tilflutning verkefna og þar með markmiðum um fjölgun opinberra verkefna í landsbyggðunum verði ekki við komið í núverandi stjórnskipulagi sýslumannsembættanna.
„Ekki verður séð með augljósum hætti að nauðsyn sé á þessum miklu stjórnsýslubreytingum til að ná kynntum markmiðum um bætta þjónustu og fjölgun verkefna í landsbyggðunum,“ segir í umsögn stofnunarinnar.
Gefin fyrirheit hafi ekki gengið eftir er sýslumönnum var fækkað úr 24 í 9
Stjórn Byggðastofnunar segist telja ástæðu til að minna á að tortryggni gæti gagnvart samþjöppun starfseininga og vel meintra yfirlýsinga um að tryggja tilvist þjónustueininga og nýta betur afl starfsmanna til aukinnar þjónustu.
„Við undirbúning laga nr. 50/2014 þar sem sýslumönnum var fækkað úr 24 í 9 voru gefin fyrirheit í þá veru en efndir fóru ekki að öllu leyti eftir. Það eru því skiljanlegar
áhyggjur af því að „útibúum“ verði lokað og eftir standi miðstýrð, fjarlæg kerfiseining þar sem íbúar í hinum dreifðu byggðum þurfa að sækja lengra og eftir flóknari leiðum, oft í sínum mestu lífskrísum,“ segir í umsögninni.
Sveitarfélög sum efins um frumvarpið
Umsagnarfrestur um frumvarpsdrög dómsmálaráðherra var lengdur á dögunum, eftir að athugasemdir bárust þess efnis að tímasetning birtingar frumvarpsdraganna væri slæm í ljósi sumarleyfa, en málið var birt í samráðsgáttinni 13. júlí.
Sveitarfélög hafa sum hver gert töluverðar athugasemdir við efni frumvarpsins og telja að skort hafi á samráð í ferlinu. Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar vill að dómsmálaráðherra falli frá frumvarpinu á þessum tímapunkti og hefji „eðlilegt samráð við hlutaðeigandi aðila um framtíðarsýn fyrir sýslumannsembættin í landinu“.
Í umsögn frá bæjarráði Grindavíkurbæjar er samráðsleysi einnig gagnrýnt og það sagt vekja furðu að samhliða sameiningu embætta standi til að leggja niður útibú sýslumanns í Grindavík.
„Í umsögn um frumvarpið er þess getið að samráð var haft við ákveðin sveitarfélög en óskiljanlegt er að ekki var haft samráð við Grindavík sem er það sveitarfélag ásamt Dalvík sem eiga að missa starfstöðvar sínar,“ sagði í umsögn bæjarráðsins.
Sumir umsagnaraðilar kalla svo eftir því að það verði betur skilgreint í frumvarpinu hvaða verkefni sýslumannsembætta skuli vinna hvar, í stað þess að sá sem er ráðherra hverju sinni hafi ákvörðunarvald um það hvaða starfsstöðvar sýslumanns skuli sinna hvaða verkum.
„Drögin fela í sér óþarflega víðtækt framsal valds til ráðherra. Það er sett í hendur ráðherra að ákveða með reglugerð hvaða þjónustuframboð verði á hverri starfsstöð. Réttra væri að skilgreina í lögum hvaða ákveðna lágmarksþjónusta verði veitt á hverri starfsstöð, t.a.m. að þjónusta í sifjamálum, dánarbúum, TR, lögbókanda og lögráðamálum verði veitt á öllum starfsstöðvum, og að ekki verði um þjónustuskerðingu að ræða fyrir íbúa. Mikil og fjölbreytt þekking er til staðar hjá löglærðum fulltrúum og starfsfólki starfsstöðva embætta sýslumanna. Með sérhæfðri þjónustu á landsvísu og staðbundinni þjónustu í heimabyggð er hætta á að þessi mikla þekking og tengsl við samfélagið fari forgörðum og ákveðinn spekileki eigi sér stað,“ segir í umsögn um málið frá Fjallabyggð, sem bæjarstjórinn Sigríður Ingvarsdóttir ritar.