Ekki stafar mikil ógn af viðskiptum með Bitcoin eða öðru sýndarfé vegna peningaþvættis, samkvæmt Ríkislögreglustjóra. Helsta ógnin við þessi viðskipti er að umfang þeirra hefur aukist töluvert á síðustu misserum, auk þess sem verknaðaraðgerðir við brotastarfsemi með þessum hætti eru ekki þekktar. Þetta kemur fram í áhættumati embættisins við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem kom út síðasta fimmtudag.
Kjarninn hefur áður fjallað um áhættumatið, en samkvæmt því fela víðtæk skattalagabrot hér á landi í sér mikla ógn vegna hugsanlegs peningaþvættis. Einnig ýti aukning reiðufjár í umferð, auk rúmrar löggjafar og lítils eftirlits eftir starfsemi einkahlutafyrirtækja, undir áhættuna á að peningaþvætti sé stundað á Íslandi.
Í áhættumatinu eru viðskipti með sýndarfé hins vegar merkt með gulum lit, sem er næst lægsti áhættuflokkurinn. Aðrir þættir sem þykja jafnmikil ógn við peningaþvætti á fjármálamarkaði eru útlánastarfsemi, rekstur sjóða og viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga. Meiri hætta þykir þó standa af öðrum þáttum, til dæmis gjaldeyrisskipti og útgáfa peninga á rafrænu formi.
Samkvæmt Ríkislögreglustjóra liggur helsta ógnin við þessa starfsemi í auknu umfangi hennar hér á landi, en í fyrra var verðmæti þessara viðskipta tæplega 1,3 milljarðar króna, samanborið við 312 milljónir króna árið 2018.
Viðskiptin séu í eðli sínu alþjóðleg, flæði frjálslega yfir landamæri og erfitt geti verið að átta sig á uppruna sýndarfjár og raunverulegum eigenda þrátt fyrir að almennt sé hægt að rekja slóð millifærslna á bálkakeðjum (e. blockchain).
Einnig segir embættið að ógn stafi af því að verknaðaraðferðir við brotastarfsemi í þessum viðskiptum séu ekki þekktar og að markaðir fyrir sýndarfé geti verið óstöðugir. Hins vegar séu fá dæmi um að peningaþvætti sé ástundað með notkun sýndarfjár hér á landi.
„Þá þarf talsverða sérþekkingu til þess að stunda viðskipti þessi en til þess arna þarf að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum og almennt að tengja aðgang að skiptimarkaðnum við bankareikning,“ stendur einnig í skýrslunni. Enginn hraðbanki sé til staðar með sýndarfé hér á landi, svo auðveldara ætti að vera að hafa yfirlit með viðskiptin.