Alþjóðleg ráðstefna um leikjaiðnað og sýndarveruleika á að leiða saman norræn sprotafyrirtæki á sviði tölvuleikja og sýndarveruleika og fjárfesta frá Bandaríkjunum og Evrópu. Fjárfestar fá tækifæri til að bóka einkafundi með sprotafyrirtækjunum fyrir viðburðinn og átta fyrirtæki fá tækifæri til að kynna starfsemi sína í svokallaðri Pitch-keppni. Meðal gesta verða áhrifamiklir fjárfestar, frumkvöðlar og útgefendur á borð við David Gardner (London Venture Partners), Susana Meza Graham (Paradox Interactive), Dean Hall (RocketWerkz og DayZ) og fleiri.
Ráðstefnan, sem heitir Slush Play, fer fram í Gamla Bíó 28. til 29. apríl næstkomandi og er skipulögð af Klak Innovit í samstarfi við lykilaðila í íslenskum leikjaiðnaði og þá sem standa að Slush-ráðstefnunni í Finnlandi. Ráðstefnan þar er ein stærsta tækni- og sprotaráðstefna Evrópu og laðar að sér fólk úr ýmsum greinum hvaðanæva að úr heiminum, en hana sóttu um 14.000 manns síðasta haust.
Aðspurð um aðdraganda ráðstefnunnar segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak Innovit og Slush PLAY, að hugmyndin að ráðstefnunni hérlendis hafi kviknað í lok síðasta árs þegar lykilgerendur í íslensku leikjasenunni höfðu fengið vilyrði fyrir styrk frá Nordic Game Institute til að halda ráðstefnu um málefni greinarinnar á Íslandi. Hluti þeirra sótti Slush-ráðstefnuna í Helsinki ásamt fulltrúum Klak Innovit. Ráðstefnan þótti framúrskarandi og Íslendingarnir fengu hugmynd um að halda ráðstefnu í samstarfi við Slush þar sem hugmyndin féll í ljúfan jarðveg.
Það er gríðarleg þekking sem hefur orðið til vítt og breitt um Norðurlöndin á þessu sviði á undanförnum árum.
„Leikjafyrirtæki sem stofnuð hafa verið á Norðurlöndunum eru á meðal þeirra stærstu í heiminum. Þar á meðal eru DICE, Supercell, Rovio, King, Paradox, Remedy, CCP og Plain Vanilla. Það er gríðarleg þekking sem hefur orðið til vítt og breitt um Norðurlöndin á þessu sviði á undanförnum árum,“ segir Salóme. „Svo eru auðvitað margir áhugaverðir hlutir að gerast í sprotasamfélaginu á Íslandi um þessar mundir; Það hefur líklega aldrei verið jafn líflegt og nú. Við erum meðal annars að sjá fleiri og fleiri öflug fyrirtæki á sviði leikjaiðnar og sýndarveruleika spretta upp og nokkur þeirra fá tækifæri til að kynna starfsemi sína fyrir gestum Slush PLAY nú í lok mánaðar“.
Framtíðarstraumar og -stefnur leikjaiðnaðarins og tengsl hans við sýndarveruleika verða meginþema ráðstefnunnar en þó sýndarveruleiki sé oftast settur í samhengi við tölvuleiki eru fleiri möguleikar fólgnir í framþróun tækninnar.
„Sýndarveruleiki kemur svo sannarlega til með að verða nýttur á fleiri sviðum heldur en í leikjaiðnaði. Leikjaiðnaðurinn er hins vegar góð leið til að kynna tækifæri sýndarveruleika. Þar reynir til dæmis á tækjabúnaðinn og tæknin nær til þeirra sem eru fyrstir að tileinka sér nýjungar,“ segir Salóme.
Fjöldi gesta ráðstefnunnar stefnir í um 250 manns en ef vel gengur spá skipuleggjendur að sú tala geti margfaldast innan fárra ára. Enn er hægt að tryggja sér miða á ráðstefnuna en nánari upplýsingar má finna á vefnum og á Facebook-viðburði ráðstefnunnar.