Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla Motors kynnti á dögunum uppfærslu fyrir Tesla S-biðfreiðarnar. Öflugri rafgeymir og nýjar stillingar gera bílstjórum nú kleift að komast í hundrað kílómetra hraða á aðeins 2,8 sekúndum. Stillingunni var gefið nafn við hæfi og heitir hún „fáránleikastillingin“ eða „ludicrous mode“ á ensku.
Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um endurbæturnar. Hrifning bílablaðamanns breska ríkisútvarpsins, BBC, leynir sér ekki í umfjöllun fjölmiðilsins. „Jú, við erum sammála um að rafbílar hafa ákveðin takmörk hvað varðar upplifun farþeganna og byggingu bílsins, en það varla hægt að segja að fáránleikastillingin sé ekki verulega tilkomumikil,“ skrifar Ollie Kew.
Blaðamaður Bloomberg-fréttastofunnar fjallar um uppfærsluna á bílnum á svipuðum nótum og spáir því hreinlega að bílar drifnir með jarðefnaeldsneyti verði útdauðir á allra næstu áratugum. „Ég giska á að árið 2035, ef ekki fyrr, verði mikill meirihluti bifreiða sem seldar eru í Bandaríkjunum og Evrópu ekki knúnir jarðefnaeldsneyti,“ skrifar Barry Ritholtz.
Tesla-rafbílarnir hafa verið vinsælir meðal þeirra sem kjósa rafmagn sem aflgjafa enda eru bílarnir sportlegir á að líta og eru búnir rafhlöðum sem endast lengur en flestir aðrir rafbílar á markaðinum. Tesla er því í fremstu víglínu rafbílavæðingar heimsins, ásamt Toyota sem hefur lagt mikla fjármuni í þróun og framleiðslu slíkra bifreiða.
Nýjasta útspil Tesla er hins vegar mikilvægt fyrir frekari þróun þessara tækja framtíðarinnar. Tesla hefur tekist að beita öllu afli rafknúnu vélarinnar í einu og dreifa því á öll fjögur hjólin án þess að vélbúnaður bílsins bræði hreinlega úr sér. Þar er nýtt „snjallöryggi“ að verki sem bílaframleiðandinn hefur hannað. „Fáránleikastillingin“ er mikilvægur liður í því að gera hefðbundna bíla óþarfa.
Ofurbíllinn Bugatti Veyron er gríðarlega öflugur og sérstaklega hannaður til að ná miklum hámarkshraða.
Til að setja hröðun Tesla S-bílsins í fáránleikastillingu í samhengi má telja til ofurbíla á borð við Bugatti Veyron sem er 2,6 sekúndur í hundraðið og sænska ofurbílinn Königsegg One sem kemst á 100 kílómetra hraða á 2,5 sekúndum. Ferrari 458 Italia og McLaren 570s eru til dæmis báðir lengur en Teslan að komast í 100 kílómetra hraða.
Ritholtz leggur til á vef Bloomberg að Elon Musk, stofnandi og eigandi Tesla, setji flottari yfirbyggingu á bílinn eða hreinilega selji tæknina til þessara sportbílaframleiðenda svo þeir geti gert rafmagnsútgáfur af bílunum sínum. Þannig yrði mannkynið fljótara að tileinka sér rafbílabyltinguna.
„Enn á ný er Musk skrefi á undan,“ skrifar Kew ennfremur á BBC og veltir fyrir sér hvað sé næst - brjálæðisstilling? Musk hefur nefnilega þegar sagt í yfirlýsingu að næsta skref birtist í næstu kynslóð götubílanna frá Teslu eftir fjögur ár.
Uppfært 23. júlí kl. 9:18 - Ranglega var sagt að enska hugtakið „fuse“ merki „kveikiþráður“ í rafmagnsbílum. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt. Í rafmagnsbílum er átt við bræðsluvarið, sem í daglegu tali kallast öryggi.